
Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi Vinstri grænna, segir Ingu Sæland segja ósatt í viðtali í Morgunblaðinu.
Stefán Pálsson skrifaði færslu á Facebook í dag þar sem hann vitnar orð Ingu, sem hún lét falla í útvarpsþættinum Sprengisandur á Bylgjunni í morgun. færslan byrjar á eftirfarandi hátt:
„Ásthildur Lóa er í rauninni hrakinn úr embættinu má segja af ósekju með óvæginni og ósannri orðræðu á margan hátt.“ „Hér endurtekur Inga Sæland margítrekaðar fullyrðingar sínar um að það hafi verið óbilgjörn umræða í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum sem hrakti Ásthildi Lóu úr embætti.“
Stefán segir tilvonandi mennta- og barnamálaráðherra ætla að endurskrifa söguna.
„Þetta er mjög augljós tilraun til að endurskrifa söguna. Umræðan um mál Ásthildar Lóu varð sannarlega mjög óvægin og hefur augljóslega orðið henni afar þungbær. En afsögn hennar var tilkynnt eftir fund með forystukonum ríkisstjórnarinnar áður en fréttin fór í loftið og því áður en nokkur samfélagsumræða var hafin. Rétt skal vera rétt.“
Sigurgestur Guðlaugsson svarar Stefáni og segir Ásthildi sannarlega hafa verið hrakta úr embætti:
„Það breytir því ekki að hún var sannanlega hrakin úr embætti. Afsögnin var undir þeim kringumstæðum að annars yrði uppnám á meðal forystukvennanna. Hvernig er hægt að orða það öðruvísi en að hún hafi verið hrakin burt?“
Þessu svarar Stefán um hæl
„Ég held að menn rugli því dálítið saman að í fárinu vegna þessa máls var eitthvað af fólki að kalla eftir því að Ásthildur Lóa segði líka af sér þingmennsku. En varðandi afsögnina úr ráðherraembætti er tímalínan mjög skýr og það er því einfaldlega ósatt þegar Inga Sæland lætur að því liggja að meintar rangfærslur í fréttaflutningi hafi ráðið niðurstöðunni.“

Komment