
Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og fyrrum þingkona Samfylkingarinnar, skýtur föstum skotum á Miðflokkinn vegna notkunar á lagi Mugison, Stingum af í myndbandi á TikTok, án leyfis frá tónlistarmanninum
Rétt er þó að taka fram að Miðflokkurinn ber ekki ábyrgð á birtingunni á myndbandinu þar sem það er ekki birt á vegum hans.
Örn Elías Guðmundsson, eða Mugison eins og hann kallar sig á tónlistarsviðinu, kvartaði sáran undan því að Miðflokkurinn hafi notað lag hans Stingum af í nýju myndbandi undir nafninu Gerum Ísland frábært aftur og það í leyfisleysi.
Helga Vala skrifaði rétt í þessu færslu á Facebook þar sem hún segir það merkilegt hve litla virðingu Miðflokkurinn beri fyrir eignarrétti listamanna.
Helga Vala skrifar:
„Það er merkilegt hvað Miðflokkurinn ber litla virðingu fyrir eignarétti listamanna. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem flokkurinn notar höfundavarið efni, án nokkurrar heimildar, í auglýsingum sínum. Hvernig ætli þingmönnum miðflokksins þætti ef listamenn tækju sig til og tækju bíla þeirra, hús eða aðrar eigur traustataki?“
Bætir hún við að stjórnarskráin verji rétt listamanna og að þarna sé um „einbeittan brotavilja“ að ræða.
„Eignarétturinn er varinn með stjórnarskrá. Að þessu sinni er ekki hægt að kenna ungliðum um heldur er augljóst að um einbeittan brotavilja fulltrúa og starfsmanna flokksins er að ræða. Ásetningurinn þannig augljós. Mugison hlýtur að leita réttar síns með þetta mál.“

Komment