
Þrettán ára stúlka lést á hörmulegan hátt eftir að hafa fallið úr yfirgefnu hóteli á Tenerife.
Stúlkan var að leika sér með vinum sínum þegar hún féll, að því er talið er, af fimmtu hæð 20 hæða byggingar í Santa Cruz á Tenerife síðdegis í gær. Þrjú önnur börn vöktu athygli á slysinu eftir fall stúlkunnar, að því er fréttamiðillinn Diario de Avisos greinir frá. Lögreglumenn á vettvangi reyndu árangurslaust að endurlífga stúlkuna.
Hótelið, Añaza, sem heimafólk kallar „Añaza-skrímslið“, bíður þess að verða rifið.
Að sögn fjölmiðla var stúlkan, sem átti heima í Añaza, í byggingunni ásamt þremur öðrum börnum sem kölluðu á aðstoð þegar slysið átti sér stað. Lögreglumenn reyndu að endurlífga hana á vettvangi, en lífi hennar var ekki hægt að bjarga.
Sama heimild segir að „ekki sé unnt að segja nákvæmlega til um aðstæður atviksins“ að svo stöddu, þó talið sé að stúlkan hafi fallið úr fimm hæða hæð.
Aðrir viðbragðsaðilar komu einnig á vettvang, þar á meðal slökkviliðsmenn frá Tenerife, neyðarþjónusta Kanaríeyja (SUC) og spænska þjóðarlögreglan. Rannsókn málsins er nú á hendi morðdeildar þjóðarlögreglunnar.
Í júní á þessu ári samþykktu borgaryfirvöld í Santa Cruz og héraðsstjórn Tenerife styrk til að standa straum af kostnaði við að rífa gamla hótelið, sem árum saman hefur verið athvarf fyrir ungmenni sem stunda jaðarsport og aðrar athafnir sem íbúar hafa kvartað yfir. Ókláraða hótelið hefur í gegnum tíðina verið vettvangur fjölmargra atvika.
Árið 2017 greindu íbúar í Añaza opinberlega frá því að að minnsta kosti fjórir hefðu látist í byggingunni: þrír í slysum og einn í grunsamlegu sjálfsvígi. Þeir sögðu: „Byggingin er með alveg opin lyftugöng og hver sem fer inn getur auðveldlega fallið ofan í þá ef hann er ekki var um sig, hrasað eða dottið niður af hvaða hæð sem er.“
Árið 2022 hótaði 50 ára kona að stökkva úr þrettándu hæð. Inngrip lögreglu kom í veg fyrir harmleik.
Tveimur árum áður, árið 2020, fóru tveir einstaklingar inn í yfirgefnu bygginguna og voru að stökkva á milli svalanna. Þá er algengt að fólk fari inn í bygginguna til að fljúga drónum eða skjóta upp flugeldum.

Komment