
Ágreiningur milli Donalds Trump Bandaríkjaforseta og repúblikanaþingkonunnar Marjorie Taylor Greene hefur vaxið í opinbert hjaðningavíg og bendir til þess að samband þeirra sé að bresta, þrátt fyrir að hún hafi lengi verið einn ákafasti stuðningsmaður hans.
Á föstudag kallaði Trump Greene „klikkaða“ á samfélagsmiðlum og sagði að hún ætti að vera sett af í kosningum á næsta ári. Á laugardag bætti hann í og kallaði hana „svikara“.
Greene hefur undanfarna daga velt því fyrir sér hvort Trump setji enn „Ameríku í fyrsta sæti“ og gagnrýnt hvernig hann hafi tekið á Jeffrey Epstein-skjölunum.
Deilan blossar upp á sama tíma og fulltrúadeildin undirbýr atkvæðagreiðslu um hvort skjölin verði gerð opinber. Forseti þingsins, Mike Johnson, hefur sagt að frumvarpið verði borið upp í atkvæði í vikunni.
Frumvarpið, sem heitir Epstein Files Transparency Act, miðar að því að dómsmálaráðuneytið verði skyldað til að birta öll ótrúnaðarmerkt skjöl, samskipti og rannsóknargögn sem tengjast Jeffrey Epstein.
Bandaríski miðillinn Politico greindi frá því að atkvæði gæti farið fram strax á þriðjudag.
„Allt sem þessi „Klikkaða“ Marjorie gerir er að KVARTA, KVARTA, KVARTA!“ skrifaði Trump á föstudagskvöld og hélt því fram að hún hefði snúist gegn honum eftir að hann ráðlagði henni að bjóða sig ekki fram sem ríkisstjóri eða öldungadeildarþingmaður í Georgíu.
„Hún hefur sagt mörgum að hún sé ósátt við að ég hringi ekki lengur í hana,“ skrifaði Trump og bætti við: „Ég get ekki tekið símhringingu frá æstum brjálæðingi á hverjum degi.“
Hann lofaði því að styðja hvern þann repúblikana sem byði sig fram gegn henni í þingkosningunum á næsta ári, og herti síðan gagnrýni sína í færslum á laugardag frá heimili sínu í Flórída.
„Marjorie „Svikari“ Green er skömm fyrir FRÁBÆRAN REPÚBLIKANAFLOKKINN!“ skrifaði hann.
Athugasemdir Trumps koma í kjölfar nokkurra daga gagnrýni frá Greene, sem hefur sakað hann um að gera ekki nóg til að lækka kostnað fyrir kjósendur. Hún hefur einnig fordæmt ákvarðanir hans í alþjóðlegum átökum og tollamálum.
Mest hefur hún þó gagnrýnt afstöðu hans til Epstein-skjalamálsins.
Þetta er dramatísk kúvending hjá þingkonu sem stóð við bakið á Trump í fjölda hneykslismála, ekki síst þegar stuðningsmenn hans réðust á þinghúsið 2021 til að reyna að koma í veg fyrir að úrslit forsetakosninganna yrðu staðfest.
Trump hefur einnig staðið dyggilega með Greene þegar hún hefur verið sökuð um að dreifa gyðingahatri og samsæriskenningum.
Greene er ein af aðeins fjórum repúblikana í fulltrúadeildinni sem gengu til liðs við demókrata og undirrituðu beiðni um að Epstein-skjölin yrðu opinberuð í síðustu viku.
Á föstudag sakaði hún Trump á X um að reyna að hindra aðrir repúblikanar greiddu atkvæði með beiðninni.
„Hann ræðst á mig af fullum þunga til að hræða aðra repúblikana fyrir atkvæðagreiðsluna í næstu viku,“ skrifaði hún. „Það er í raun ótrúlegt hversu hart hann berst gegn birtingu Epstein-skjala að hann skuli fara svona langt.“
Á laugardag sagði hún að Trump hefði gert hana að skotmarki hótana „sem eru knúnar áfram og ýtt áfram af valdamesta manni í heimi“.
„Sem repúblikani sem styður nánast öll mál og stefnu Trump forseta, eru þessi óbilgjarna árás hans á mig … algjörlega sjokkerandi fyrir alla,“ skrifaði hún.
„Ég tilbið eða þjóna ekki Donald Trump,“ skrifaði hún í annarri færslu. „Ég tilbið Guð, Jesús er frelsari minn, og ég þjóna kjördæmi mínu GA14 og bandarísku þjóðinni.“
Robert Moran, fyrrverandi skoðanakönnunarstjóri og stefnumarkandi ráðgjafi repúblikana, sagði augljóst að forsetinn vildi ekki að Epstein-skjölin yrðu birt og að hann „reyni að beita Greene þrýstingi“.
Hann efaðist þó um að rifrildi þeirra hefði áhrif á vinsældir Trump þar sem þjóðin væri svo tvístruð. Hann sagði jafnframt að skjölin myndu að lokum koma út hvort sem væri.
„Margir kjósendur hans eru tortryggnir gagnvart valdi og vilja að það sé dregið til ábyrgðar, þeir styðja að skjölin verði birt,“ sagði hann.
Trump hefur um árabil sætt gagnrýni frá báðum flokkum vegna þess hvernig hann hefur farið með skjöl dómsmálaráðuneytisins sem tengjast Epstein, fjármálamanni og dæmdum barnaníðingi sem lést árið 2019.
Trump var vinur Epstein árum saman en hefur sagt að þeir hafi slitið vináttunni snemma á öldinni, tveimur árum áður en Epstein var fyrst handtekinn. Trump hefur ætíð neitað hvers kyns misgjörðum.

Komment