
Um 9.000 manns komu saman á fjöldafundum víða um land laugardaginn 6. september til að sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni og mótmæla því sem skipuleggjendur kalla stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð Ísraels í Palestínu.
Fundirnir, sem haldnir voru í Reykjavík, Stykkishólmi, Ísafirði, Hólmavík, Húsavík, Akureyri og á Egilsstöðum, voru liður í aðgerðinni Þjóð gegn þjóðarmorði, sem skipulögð var af Breiðfylkingunni og samráðsvettvangnum Samstaða með Palestínu.
Samkvæmt skipuleggjendum tókst að virkja samstöðu 185 ólíkra félaga, hópa og stofnana á örfáum dögum. Í fréttatilkynningu þakka þeir sérstaklega þeim sem stóðu fyrir fundunum utan höfuðborgarsvæðisins.
Á Austurvelli í Reykjavík fluttu ræðumenn ákall til stjórnvalda um aðgerðir.
„Í dag heimtar þjóðin alvöru aðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ekki fleiri orð sem lýsa áhyggjum, hneykslan eða uppgjöf. Við krefjumst aðgerða sem bíta og láta þá seku sæta ábyrgð,“ sagði Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ.
Fida Abu Libdeh, frumkvöðull, lagði áherslu á mannúðaraðstoð og ábyrgð Ísraels:
„Við verðum að krefjast þess að mannúðaraðstoð fái að berast. Að hungrið verði stöðvað. Að hernáminu verði lokið. Að Ísrael verði dregið til ábyrgðar fyrir þessi brot.“
Skipuleggjendur segjast fagna viðbrögðum stjórnvalda en telja þau ekki í samræmi við alvarleika aðstæðna.
Röð málfunda fram undan
Samstaða með Palestínu tilkynnti jafnframt um áframhaldandi aðgerðir en framundan er röð málfunda. Fyrsti málfundurinn verður fimmtudaginn 18. september kl. 17.30 á Listasafni Reykjavíkur. Þar munu Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Amnesty International á Íslandi, og Baldur Þórhallsson, prófessor, halda erindi og ræða við fundargesti. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir mun stýra fundinum.
Í tilkynningunni eru einnig vitnað í orð Steinunnar Þórðardóttur, formanns Læknafélags Íslands, sem segir atlöguna að heilbrigðisstarfsfólki á Gaza „ógna ekki eingöngu íbúum Gaza heldur heiminum öllum“.
Þá er einnig vitnað í Matthildi Bjarnadóttur, prests, sem flutti skilaboð á fjöldafundinum: „Stundum er það stórhættulegt að elska, gerðu það samt. Finndu þínar leiðir til þess að senda afleggjara ástar inn í framtíðina.“
Komment