Sænskir saksóknarar greindu frá því í dag að þeir muni ákæra 18 ára karlmann fyrir að skipuleggja hryðjuverk í Stokkhólmi fyrir hönd hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins.
Samkvæmt saksóknurum átti skipulagningin sér stað á tímabilinu frá ágúst 2024 til febrúar 2025.
„Við teljum að tilgangurinn hafi verið að valda alvarlegum ótta meðal almennings í nafni Íslamska ríkisins. Glæpurinn hefði getað haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir Svíþjóð,“ sagði varayfirsaksóknarinn Henrik Olin í yfirlýsingu.
Saksóknarar gáfu ekki upp nánari upplýsingar, en sögðu að maðurinn væri einnig grunaður um „undirbúning alvarlegra brota samkvæmt lögum um sprengiefni og þjálfun í hryðjuverkastarfsemi“.
Saksóknarar sögðu að stefnt væri að því að leggja fram ákæruna á fimmtudag og að blaðamannafundur yrði haldinn sama dag.
Ungi maðurinn verður einnig ákærður ásamt 17 ára dreng fyrir tilraun til morðs í Þýskalandi í ágúst 2024.
Báðir eru þeir einnig grunaðir um „þátttöku í hryðjuverkasamtökum,“ samkvæmt yfirlýsingunni.
Maðurinn var handtekinn í Stokkhólmi þann 11. febrúar og hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan.

Komment