Kolbeinn Þorsteinsson gaf nýverið út bókina Mamma og ég - Myndir og minningar en hún er saga mæðginanna Kolbeins og Ástu Sigurðardóttur rithöfundar.
Í bókinni gerir Kolbeinn upp samband sitt við móður sína en Ásta glímdi við óreglu lengst af ævi sinni og barðist við þá djöfla sem fylgja fíkninni. Börnin voru tekin af henni og send í fóstur en bókin hefur fengið góðar viðtökur.
Jólin 1971 var Kolbeinn í fóstri og var tilkynnt að móðir hans væri látin en hann opnar sig um þetta í viðtali við Heimildina. „Nánast í sömu andrá og jólin voru hringd inn fengum við þær fréttir að mamma væri dáin.“
„Ég held að börn séu almennt lítið að hugsa um dauðann, allra síst dauða sinna nánustu. Ég held að ekkert okkar hafi meðtekið þetta. Við sátum þarna í sjokki. Þetta var mikið áfall. Ekki minnist ég þess að við höfum öll grátið hástöfum, en við vorum hnuggin,“ sagði Kolbeinn við Heimildina.
Grét en ekki fyrir framan að fólk
Kolbeinn segir að það hafi verið fyrst í jarðarförinni sem hann áttaði sig í raun á andláti móður sinnar.
„Þá fyrst varð þetta endanlegt. Á það ber að líta að ég hafði lengi vanið mig á að vera ekki að kvarta og kveina heldur halda haus. Ég ákvað að birgja þetta inni og eiga við sjálfan mig. Það er sama hvað ég róta í mínum minningum þá man ég ekki eftir því að hafa bugast fyrr en í jarðarförinni,“ sagði Kolbeinn.
Þar brotnaði hann niður og grét. „En ekki fyrir framan fólk.“
Komment