
Í aðalmeðferð Þorlákshafnarmálsins, þar sem Hjörleifur Haukur Guðmundsson lést eftir að hafa verið numinn á brott af heimili sínu 10. mars, hafa verjendur tveggja sakborninga krafist sýknu af ákæru um manndráp. Réttað er yfir þeim Stefáni Blackburn og Lúkasi Geir Ingvarssyni, ásamt hinum þriðja, Matthíasi Birni Erlingssyni, sem einnig er ákærður í málinu.
Verjandi Stefáns, Páll Kristjánsson, lagði áherslu á að umbjóðandi hans hefði gengist við grófu ofbeldisbroti en væri saklaus af manndrápi. Hann sagði að ætlun Stefáns hefði fyrst og fremst verið að afla fjár með „giggi“ og hefði talið Hjörleif vera barnaníðing, þó engan veginn væri ætlunin að ráða honum bana. Páll benti á ýmsa vankanta í rannsókn lögreglu, þar á meðal á fingrafaraathugun, sem og rannsókn á hvort og hvaða áhöldum hefði verið beitt í árásinni og hvernig þau pössuðu við áverka. Hann sagði að rannsóknin væri „reist á sandi“ og að rannsóknaraðferðir hefðu ekki skilað fullnægjandi niðurstöðum.
Páll lýsti persónulegum högum Stefáns, hann hafi verið edrú í átta ár, fjölskyldumaður í fastri vinnu og án tengsla við brotaþola. Hann sagði umbjóðanda sinn og Lúkas trúverðuga, en að framburður Matthíasar væri hinsvear óáreiðanlegur.
„Hafi átt að valda bana - afhverju var þá vopnum ekki beitt? Hvaða tilgangi þjónaði það að taka niðurlægjandi myndband af Hjörleifi? Það er vegna þess að tilgangurinn var að fá hjá honum fé, ekkert annað.“ Páll hélt áfram að svara eigin spurningum
„Af hverju kláruðu menn ekki manndrápið og földu líkið? Af hverju skildu þeir það eftir? Af hverju hringdu þeir ekki á bráðalið eða lögreglu? Það er vegna þess að þeir töldu hann ekki í lífshættu.“
Tekur í sama streng
Verjandi Lúkasar, Stefán Karl Kristjánsson, tók í sama streng og sagði að áverkarnir sem Lúkas er talinn hafa valdið hefðu ekki leitt til andláts Hjörleifs. Hann sagði að tilgangur Lúkasar hefði fyrst og fremst verið fjáröflun með kúgunum, meðal annars með því að plata Hjörleif með því að þykjast vera stúlka á Snapchat. Stefán Karl benti á að þau hefðu yfirgefið Hjörleif á fjölförnum stað innan borgarinnar, ekki úti í óbyggðum, sem benti til þess að þau ætluðu honum ekki bana. Hann sagði einnig að bráðaliðar hefðu ekki verið látnir gefa skýrslu, og að læknismeðferð á spítala hefði mögulega haft áhrif á áverkana sem leiddu til dauða Hjörleifs.
Bæði Páll Kristjánsson og Stefán Karl kröfðust vægustu mögulegu refsingar fyrir skjólstæðinga sína í öðrum ákæruliðum, sem varða frelsissviptingu, fjárkúgun og rán. Þeir báðu einnig um lækkun einkaréttarkrafna sem ekkja og sonur Hjörleifs gera á hendur sakborningunum.
Stefán Karl lagði áherslu á að Lúkas hafi aðeins notað „andleg kverkstök“ til að ná fjármunum, ekki til að valda dauða.
Aðalmeðferð málsins lauk að hluta í dag og verjendur ætla að flytja mál sitt áður en dómari kveður upp úrskurð um refsingar og sýknu.
Komment