
Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir segir um ástandið á Gaza - þar sem helför Ísraelsmanna gegn Palestínumönnum fer fram og allur heimurinn horfir á og aðhefst ekkert - að „við lifum á tímum þegar þjóðarmorð blasir við í beinni útsendingu bæði á tölvuskjánum og sjónvarpsskjánum.“
Auður veltir því fyrir sér hvernig fólk í „Palestínu er svelt, sprengt og pyntað hefur mætt fordæmingu víða um heim en hún ein hefur litla þýðingu þegar nauðsynlegar aðgerðir fylgja ekki í kjölfarið.“
Hún segir að „það sem gerist er að almenningur horfir upp á aðfarir sem við fengum á tilfinninguna sem börn í skóla að myndu aldrei endurtaka sig þegar við lærðum um Auschwitz-Birkenau.“
Bætir við:
„Í dag horfum við hins vegar á kerfisbundin fjöldamorð og svo hræðilegar aðfarir að engin orð fá þeim lýst. Flest þau sem drepin hafa verið eru börn og ungt fólk. Skotmörkin hafa verið spítalar jafnt sem skólar, hjálparstarfsmenn, heilbrigðisfólk og blaðamenn. Fólk er bæði sprengt og svelt til dauða. Og eitthvað í okkur ruglast.“
Auður vill meina að svo lengi sem þjóðarleiðtogar heimsins grípi ekki til aðgerða gegn Ísrael þá viðhaldist „normalíseringin, íþróttafélög halda áfram að keppa við keppendur frá Ísrael og evrópskar sjónvarpsstöðvar halda áfram að stuðla að því að mannfjöldinn fagni keppendum þaðan. Allir segja: Ekki benda á mig – ég get ekkert gert meðan allt er svona, ekki fordæma mig!“
Auður segir að „seigdrepandi normalísering“ haldi áfram og við verðum „öll aðeins ringlaðri með hverjum deginum sem líður.“
Hún segir að skáld hafi „mætt fordæmingu fyrir að hafa tekið í hönd Hitlers, slíkt handaband hefur þótt normalísering á morðingja. En hvað um okkur? Í dag? Núna? Hvernig munu komandi kynslóðir skilja viðbrögð eða viðbragðsleysi okkar?“
Undanfarin misseri hefur Auður bæði talað við flóttafólk frá Palestínu hér á landi - sem lifir í ótta um ættingja jafnt sem vini - og einnig rætt við fólk á Gaza sem óttast að börnin sín muni svelta í hel um leið og heyra má sprengingar í næsta nágrenni þess.
„Veruleiki þeirra er alveg jafn raunverulegur og veruleiki fólksins sem ég rabba við í Nettó eða krakkanna að leika á skólalóð sonar míns, þau eru alveg jafn nálæg.“
Hún færir í tal að hvert og eitt „okkar getur hringt í manneskju á Gaza til að fá úr því skorið, til að veruleikar þeirra mætist. Fjarlægðin er ekki meiri en svo. En nú er annars konar fjarlægð að há okkur, nefnilega fjarlægðin frá því að skynja veruleika annarra. Taka mark á honum. Gera það sem okkur sem börnum í skóla að læra um útrýmingabúðir nasista hefði þótt sjálfsagt.“
Og Auður vill „grípa til aðgerða, reyna að gera okkar til að stöðva martröðina, taka ekki þátt í normalíseringunni. Meðan það er ekki gert þá höldum við áfram að ruglast. Höldum áfram að normalísera hið óeðlilega, bara af því að hinir gera það. Vitum á endanum ekki hver við erum.“
Komment