
Jódís Skúladóttir, fyrrverandi þingmaður og nú deildarfulltrúi framhaldsnáms hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, lýsir slæmri upplifun af heilbrigðiskerfinu í nýrri færslu á Facebook. Þar segir hún frá því að hún hafi beðið síðan í júní eftir tíma hjá sérfræðilækni og sé óvinnufær með með mörg og flókin einkenni.
Í færslunni segir Jódís að í tímanum hjá sérfræðilækni síðasta fimmtudag hafi læknirinn gefið henni tíma í rannsókn á Borgarspítalanum daginn eftir. Stuttu eftir tímann hafi svo verið hringt frá spítalanum og henni tjáð að þar sem læknir yrði að vera viðstaddur rannsóknina sé aðeins hægt að framkvæma rannsóknina á mánudögum. Var henni því boðið tími í dag klukkan níu.
Þegar á staðinn var komið hafi þó komið í ljós að gleymst hefði að gera lækni viðvart um rannsóknina.
„Kona, sem virtist bæði þreytt og miður sín, tjáði mér að gleymst hefði að gera lækni viðvart um tímabókunina. Einn læknir væri í leyfi, einn hefði sagt upp og sú sem stæði ein eftir væri stödd á Hringbraut og gæti alls ekki komið. Ég bauðst til að fara niður á Hringbraut ef það gæti leyst málið en var tjáð að þar væri ekki aðstaða fyrir svona rannsókn.“
Jódís heldur áfram: „Niðurstaðan var á endanum að senda mig heim og einhver mun hafa samband í vikunni og láta mig vita hvenær og hvert ég á að mæta,“ skrifar hún. Hún lýsir heilbrigðisstarfsmönnum sem þreyttum og uppgefnum, í úreltu húsnæði og með tæki sem séu „úr sér gengin“. „Ég er bara ein af þúsundum sem þarfnast þjónustu og aðstoðar. Við öll sem búum á biðlistum erum manneskjur sem erum uggandi yfir heilsunni, við erum með verki, við sofum lítið, við erum hrædd og kvíðin.“
Jódís varar við tvöföldu heilbrigðiskerfi og gagnrýnir einkarekstur og segir megináherslu hans að byggjast á arðsemiskröfu fremur en þjónustuþörf sjúklinga.
„Það er mannanna verk að svelta hið opinbera kerfi ár eftir ár til þess að búa til glansmynd einkareksturs sem einhverrar lausnar,“ skrifar hún og bætir við að þjónustu og mennsku í kerfinu hafi hrakað á þeim rúmlegu 40 árum sem hún hafi komið að því sem sjúklingur eða aðstandandi.
Hún segir að ekki sé fólki á flótta eða starfsfólki spítalanna um að kenna, heldur sé um að ræða „meðvitaða ákvörðun stjórnvalda hverju sinni“, óháð stjórnmálaflokkum eða efnahagsástandi. „Óháð flokkum, óháð hagvexti, óháð mannúð virðist það vera samþykkt að hinu opinbera heilbrigðiskerfi megi einfaldlega blæða út. Það er bara engin að græða á því að ríkið veiti sjúkum þjónustu.“
Jódís endar færslu sína á spurningu: „Þurfum við ekki eitthvað að skoða þetta?“

Komment