
Borgarráð samþykkti í dag að ráðast í umfangsmikið átak til að fjölga leikskólaplássum í Reykjavík um 162. Samhliða verður bætt aðstaða starfsfólks í nokkrum leikskólum borgarinnar. Þetta kemur fram á heimasíðu Reykjavíkurborgar.
Á undanförnum árum hefur Reykjavíkurborg bæði fjölgað leikskólaplássum og sinnt viðhaldi og endurnýjun á eldri leikskólabyggingum, segir í fréttinni. Nú verður haldið áfram á þeirri braut með verkefninu Brúum bilið, sem snýst um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar.
Í nýja átakinu verða byggðar 14 nýjar kennslustofur við sex leikskóla um borgina, ásamt tengibyggingum og lóðaframkvæmdum. Þetta skapar ekki aðeins ný leikskólapláss heldur bætir einnig vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk.
Leikskólarnir sem fá viðbætur eru Grandaborg, Hólaborg, Árborg, Jörfi, Maríuborg og Vesturborg. Með framkvæmdunum verða eldri og minni kennslustofur teknar úr notkun, en samtals eykst fjöldi leikskólaplássa verulega.
Samkvæmt fréttinni er það forgangsmál hjá borginni að mæta þörfum fjölskyldna og skapa góðar aðstæður fyrir leikskólastarf, bæði fyrir börn og starfsfólk.
Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður 2,1 milljarður króna, þar af fara 150 milljónir í lóðaframkvæmdir. Samþykkt borgarráðs gerir kleift að hefja innkaupaferli fyrir verkefnið.
Komment