
Skelfileg myndbandsupptaka sýnir augnablikið þegar kona hellti ketli fullum af sjóðandi vatni yfir andlit ömmu, sem hlaut alvarlega brunasár.
Susan Varley, 68 ára, var á leið með fjögurra ára gömlu barnabarni sínu á leikskóla þegar nágranni hennar, Ina Priestly, 56 ára, gekk að henni og hellti sjóðandi vatninu yfir hana. Á hryllilegri upptöku úr öryggismyndavél má sjá Susan hrynja í jörðina öskrandi af sársauka á meðan Priestly gekk einfaldlega í burtu.
Susan hlaut alvarlega brunasár á hársverði, enni, vinstri kinn og eyra, sem og aftan á hálsi. Gleraugu hennar björguðu sjóninni, en barnabarnið slapp einungis vegna þess að það var með hettu á úlpunni.
Ina játaði sig seka um að hafa valdið alvarlegum líkamsmeiðingum af ásetningi fyrir Leeds Crown Court og var dæmd í tveggja ára samfélagsþjónustu. Hún þarf einnig að taka þátt í allt að 25 endurhæfingarverkefnum.
Susan, sem er frá Morley í Leeds, er enn of veik til að tjá sig, en dóttir hennar Donna, 35 ára, sagði:
„Mamma mín er nú aðeins skugginn af sjálfri sér. Hún var áður félagslynd og glaðleg en fer varla út úr húsi lengur. Hún lifir í stöðugum ótta við að verða ráðist á hana aftur, næst gæti það verið sýra eða hnífur. Hún fær enn martraðir og endurupplifanir. Hún er bæði líkamlega og andlega örkumla eftir þessa árás.“
Donna segir að Ina hafi verið nágranni móður hennar í tvo áratugi og hafi stöðugt valdið henni vandræðum:
„Hún hafði hótað henni, skemmt garðinn hennar, lagt nagla á innkeyrsluna svo dekkin á bílunum hennar sprungu. Hún var ill við hana án nokkurrar ástæðu. Mamma mín kvartaði ítrekað til sveitarfélagsins en var alltaf sagt að tilkynna málið áfram í kerfinu.“
Susan var flutt á bráðadeild Leeds General Infirmary og síðar á Pinderfields-sjúkrahúsið í Wakefield, þar sem hún gekkst undir aðgerð vegna blöðra sem höfðu myndast á andliti og höfði. „Meiðslin voru hræðileg, hún hafði ekkert gert til að verðskulda þetta,“ segir Donna. „Læknarnir þurftu að skrapa blöðrurnar af og setja umbúðir til að reyna að koma í veg fyrir sýkingar.“
Ina kom fyrst fyrir Leeds Magistrates’ Court 10. mars þar sem hún játaði ekki sök og var úrskurðuð í gæsluvarðhald. Réttarhöld voru ákveðin 5. ágúst, en sama dag breytti hún framburði sínum og játaði sök.
Í vikunni var hún dæmd í Leeds Crown Court í tveggja ára samfélagsþjónustu, 25 endurhæfingarskyld verkefni, 114 punda sekt og ótímabundið nálgunarbann gagnvart Susan.
Mirror fjallaði um málið en þar má sjá hið hryllilega myndskeið af árásinni en lesendur eru varaðir við að horfa.
Komment