Tónlistarmaðurinn Haukur Páll Árnason gaf nýverið út sína fyrstu plötu en hann hefur starfað að tjaldabaki í íslensku rappi í um það bil áratug þrátt fyrir ungan aldur.
Platan hans, sem nefnist Kyrrðin, kom út 21. nóvember og eru margir góðir gestir á henni og er hægt nefna t.d. Trausti~, Saint Pete og B-Ruff.
Haukur starfar einnig sem hljóðmaður í kvikmyndabransanum og er mjög metnaðargjarn þegar kemur að tónlistarmyndböndum eins og sjá má í tónlistarmyndbandinu við lagið Kjaftæði.
Væntanlegt er nýtt myndband frá Hauki þar sem hann fékk ömmu sína til að leika í myndbandinu við lagið Kex & Kakómalt en hún heitir Sigurlína Stella Árnadóttir, kölluð Stella, og er 81 árs gömul.
Mannlíf ræddi við Hauk um plötuna, myndböndin og Stellu.
„Kex & Kakómalt er mestmegnis samið um tilfinninguna sem maður fékk sem unglingur þegar maður þurfti virkilega á smá slökun að halda, hvort sem það var skólinn, stelpur eða vinirnir þá fékk hugurinn enga ró,“ segir Haukur þegar hann er spurður út í hvernig það kom til að hann fékk ömmu sína í myndbandið.
„Þá var best að kíkja til ömmu og afa, fá sér allt það góða sem amma lagði á borðið en þar var einmitt alltaf til kex og kakómalt. Svo var spilað smá Ólsen ólsen og talað um lífið og tilveruna. Það kom auðvitað ekkert annað til greina en að fá ömmu í myndbandið til að skapa sömu stemningu og lagið gefur mér, mér líður bara eins og ég sé kominn aftur í tímann þegar ég hlusta á það.“
En hvernig hefur samband þitt verið við ömmu þína í gegnum árin?
„Við amma höfum alltaf verið mjög náin, og það á einnig um hina ömmu mína og afa mína,“ segir Haukur.
„Amma og afi bjuggu einmitt í næsta húsi við grunnskólann minn svo ef það var ekki spennandi matur í skólanum tölti ég yfir til þeirra og fékk grillaða samloku og, jú oftast var sötrað á kakómalti. Vinum mínum fannst samlokurnar svo góðar að það myndaðist stundum smá biðlisti um hver fengi að koma með mér til ömmu. Amma er geitin í eldhúsinu enda hefur hún meira og minna starfað í eldhúsum allt sitt líf, svo ég sagði henni bara að það væri það sem hún myndi gera í myndbandinu og þá var hún til. Amma starfaði meðal annars í eldhúsinu á Bessastöðum fyrir Ásgeir Ásgeirsson, hafragrauturinn á morgnana var í uppáhaldi og ég get tekið undir það með fyrrum forseta Íslands.“
Hvað hefur þú lært af ömmu þinni yfir ævina?
„Ef ég ætti að taka einhvern lærdóm frá ömmu er það að maður þarf að vinna hart fyrir því sem maður brennur fyrir, okkar kynslóð mun aldrei skilja harkið sem fólk á hennar aldri hefur þurft að taka á sig til að standa á eigin fótum. Hún hugsar svo vel um fólkið í kringum sig og það er eitthvað sem maður getur dáðst að.“
Hvernig er fólk að taka í plötuna?
„Platan hefur fengið virkilega góðar viðtökur og ég er bara sjúklega spenntur að gefa frá mér meiri tónlist og vinna með alls konar tónlistarfólki, ég er pródúser í grunninn svo ég er alltaf að gera eitthvað nýtt og spennandi sama hvað.“


Komment