
Ný könnun Gallup fyrir Samgöngustofu sýnir að íbúar á Austurlandi eru tregari en landsmenn almennt til að nota bílbelti. Um helgina verður víða um land minnst þeirra sem hafa látið lífið í umferðarslysum, m.a. á Breiðdalsvík, Egilsstöðum og Eskifirði. Þetta kemur fram hjá Austurfrétt.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, sem gerð var í tengslum við minningardag fórnarlamba umferðarslysa í dag, sker Austurland sig verulega úr þegar kemur að notkun öryggisbelta. Sextán prósent Austfirðinga sögðust hafa ekið innanbæjar án beltis oft á síðustu sex mánuðum, sem er hæsta hlutfallið í landinu. Aðeins 63% nota beltin ávallt, lægsta hlutfallið á landsvísu, og svarmöguleikinn „oft“ sést varla hjá öðrum landshlutum.
Svipað mynstur kemur fram þegar spurt er um farþega.
– 9% Austfirðinga hafa oft setið í framsæti án beltis, en 75% aldrei.
– Í aftursæti voru 16% oft eða stundum án beltis og 73% aldrei.
Margir telja óþarft að nota bílbelti í stuttum ferðum
Notkun eykst þegar horft er til ferða utan þéttbýlis, en Austfirðingar eru þó einnig þar aftastir í flokki.
– 12% spenna sjaldan eða aldrei beltið utan þéttbýlis, á móti 79% sem gera það alltaf.
– Í framsæti segjast 9% sjaldan nota beltin en 82% alltaf.
– Í aftursæti er hlutfallið 15% gegn 82%.
Algengustu skýringarnar á bílbeltaleysu eru að fólk gleymi beltinu eða telji það óþarft í stuttum ferðum. Austfirðingar nefna oftar en aðrir að þeir finni fyrir meira öryggi án beltis eða finnist þau óþægileg. Könnunin byggir á svörum 33 Austfirðinga og 969 þátttakenda á landsvísu og var framkvæmd í október.
Í ár er sérstök áhersla lögð á bílbelti í tengslum við minningardaginn, þar sem könnunin sýnir að 10–15% landsmanna sleppi reglulega við að nota þau. Samkvæmt nýrri samantekt Samgöngustofu voru yfir helmingur þeirra sem hafa látist innanbæjar síðustu 20 ár ekki í beltum. Líkur á að farþegi án beltis láti lífið í slysi eru þrettánfalt meiri en hjá þeim sem nota belti.

Komment