
Bangsafélagið stendur að Reykjavík Bear helginni sem haldin verður dagana 28.–31. ágúst í höfuðborginni. Um er að ræða tímamótahátíð þar sem fagnað verður bæði fimm ára afmæli hátíðarinnar og 20 ára sögu bangsasamfélagsins á Íslandi. Gert er ráð fyrir um 100 gestum hvaðanæva að úr heiminum sem koma saman til að njóta fjölbreyttrar dagskrár og samveru.

Í fyrsta sinn verður haldin keppnin Mr. Reykjavík Bear, þar sem lögð er áhersla á fjölbreytileika, sjálfsöryggi og samstöðu samfélagsins. Dómnefnd skipuð bæði íslenskum og erlendum sérfræðingum mun velja sigurvegara með aðkomu áhorfenda, sem geta tekið þátt í kosningunni á vef Bangsafélagsins. Sigurvegari hlýtur titilinn Mr. Reykjavík Bear og verður fulltrúi bangsasamfélagsins á Íslandi sem og sendiherra þess á viðburðum erlendis á árinu.

Reykjavík Bear helgin stendur yfir í fjóra daga og býður upp á fjölbreytta dagskrá. Þar á meðal eru skoðunarferð um Gullna hringinn, heimsóknir í Sky Lagoon, Bláa lónið og sjóböðin í Hvammsvík auk fjölda kvöldviðburða. Meðal hápunkta verður Top Off Party á föstudagskvöldi en aðalviðburður helgarinnar er Mr. Reykjavík Bear keppnin sem fram fer á Lemmy.
Bangsafélagið, sem stofnað var árið 2019, vinnur að því að efla samstöðu, sýnileika og jákvæða líkamsímynd innan hinsegin samfélagsins. Félagið er hagsmunaaðili Samtakanna ’78 og leggur áherslu á að skapa öruggt rými þar sem allir geti fundið vináttu, samstöðu og gleði, óháð líkamsgerð eða kynvitund.
Komment