
Matvælastofnun hefur hafið rannsókn á atviki þar sem bleikjuseiði sluppu úr eldiskeri í fjöru skammt frá Tálknafjarðarhöfn í lok desember. Stofnuninni barst nafnlaus ábending föstudaginn 9. janúar 2026 um dauð og hálfdauð bleikjuseiði í höfninni.
Við eftirgrennslan Matvælastofnunar kom í ljós að atburður hafði átt sér stað hjá fyrirtækinu Tungusilungi 30. desember 2025. Þá flæddi yfir í eldisker með þeim afleiðingum að eldisfiskur komst út í sjó.
Samkvæmt upplýsingum frá rekstrarleyfishafa voru um 27 þúsund fiskar í kerinu þegar atvikið átti sér stað. Að mati rekstraraðila fóru aðeins nokkrir tugir fiska úr kerinu, en ekki verður hægt að staðfesta fjöldann fyrr en kerið hefur verið tæmt, sem áætlað er að verði gert á næstu vikum.
Rekstraraðili telur jafnframt að flestir, ef ekki allir, fiskarnir sem sluppu hafi verið dauðir eða laskaðir. Meðalþyngd fiska í kerinu var um 35 grömm.
Þá kemur fram að viðbragðsáætlun vegna stroks var ekki virkjuð í kjölfar atviksins. Matvælastofnun vinnur nú að rannsókn málsins og mun gefa út skýrslu þegar rannsókninni er lokið.

Komment