Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingmaður og þingflokksformaður Samfylkingarinnar, mun leiða stýrihóp mennta- og barnamálaráðuneytisins um mótun fyrstu ungmennastefnu Íslands en þetta kemur fram í tilkynningu frá yfirvöldum.
„Markmið hennar er að sameina ólík stefnumál sem snerta ungt fólk og tryggja aukna þátttöku ungs fólks í stefnumótun,“ segir í tilkynningunni.
„Á undanförnum árum hefur komið skýrt fram í gögnum, rannsóknum og ábendingum ungs fólks að skortur sé á heildstæðri sýn og stefnu í málefnum ungs fólks. Að auki hefur Ísland undirritað fjölmörg alþjóðleg samkomulög um réttindi barna og ungs fólks sem leggja áherslu á þátttöku og aðgengi að tækifærum,“ segir einnig.
„Ungmennastefna mun stuðla að jöfnum tækifærum óháð uppruna, kyni, fötlun eða búsetu. Samfélög sem fjárfesta í ungu fólki byggja aukna farsæld, aukið traust og sterkari samfélagslega samheldni,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra um málið.
Guðmundur Ari Sigurjónsson hefur víðtæka reynslu af starfi með ungu fólki og hefur meðal annars setið í Æskulýðsráði ríkisins, starfað á vettvangi félagsmiðstöðva ásamt víðtækri reynslu úr stjórnsýslu.


Komment