
Danska varðskipið Thetis hefur verið við bryggju á Seyðisfirði frá því í fyrradag. Skipið kom til hafnar eftir að hafa sinnt eftirliti á hafsvæðinu undan Austurlandi síðustu daga. Þetta kemur fram í frétt Austurfréttar.
Samkvæmt Rúnari Gunnarssyni, hafnarverði í Seyðisfjarðarhöfn, er viðkoman liður í áhafnarskiptum, auk þess sem skipið tekur eldsneyti og endurnýjar vistir. Thetis hefur verið lengi á sjó og kom hingað frá Færeyjum, en að lokinni viðdvöl heldur það aftur út á haf til áframhaldandi eftirlits.
„Þeir komu að bryggju í gærkvöldi en voru þá búnir að vera hér úti í firðinum í svona sólarhring eða svo. Þeir eru fyrst og fremst í áhafnarskiptum en taka hér eldsneyti líka. Það er auðvitað ekkert gefið upp um erindi þeirra hér um slóðir en þetta er einhvers konar eftirlit sem skipið sér um hér úti fyrir. Þeir áttu reyndar að vera hér í síðustu viku en voru þá kallaðir til Færeyja,“ segir Rúnar í samtali við Austurfrétt í gær.
Á vef danska ríkisútvarpsins, DR, kemur fram að Thetis hafi frá nóvember 2023 fyrst og fremst gegnt eftirlitshlutverki fyrir hönd NATO á norðurslóðum. Skipið sé ekki hannað til þátttöku í hernaðarátökum, þar sem það sé talið orðið gamalt og búið takmörkuðum vopnum, heldur sé hlutverk þess einkum að sinna vöktun og eftirliti.

Komment