
Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú Íslands segir Donald Trump hafa rétt fyrir sér þegar hann segist ekki skuldbundinn friði úr því að hann fékk ekki Friðarverðlaun Nóbels.
Í frétt RÚV segir frá bréfi Donalds Trump til Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, þar sem hann segist ekki vera bundinn því að hugsa aðeins um frið, í ljósi þess að hann fékk ekki Friðarverðlaun Nobels en Trump hefur nú hótað að setja á tolla á þau lönd sem stutt hafa Grænland undanfarið.
RÚV deildi skjáskoti af fréttinni á Instagram en Dorrit Moussaieff skrifaði athugasemd við fréttina þar sem hún skrifar: „Hvort sem þér líkar betur eða verr, þá hefur hann rétt fyrir sér.“
Eiginmaður Dorritar, Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, er stofnandi og stjórnarformaður Hringborðs Norðurslóða, árlegrar ráðstefnu þar sem málefni Norðurslóða eru rædd en hann varaði við afleiðingum þess ef Bandaríkin tækju Grænland með valdi, í viðtali við Access Middle East hjá CNBC á dögunum.
Mannlíf sendi fyrirspurn til Dorritar þar sem hún er spurð út í þessa athugasemd en hefur þegar þessi frétt er skrifuð, ekki svarað fyrirspurninni.

Komment