
Efling lýsir yfir eindregnum stuðningi við grænlenskt verkafólk og stéttarfélög landsins á þeim ólgutímum sem nú ríkja í alþjóðamálum. Stjórn félagsins samþykkti í gær ályktun þar sem sendar eru baráttukveðjur til Sulinermik Inuussutissarsiuteqartut Kattuffiat (SIK), landssambands grænlenskra stéttarfélaga.
Í ályktuninni leggur stjórn Eflingar áherslu á að framtíð Grænlands skuli alfarið ráðin af Grænlendingum sjálfum og lýsir yfir samstöðu gagnvart þeirri ógn sem hún segir steðja að landinu.
„Við lifum á hættulegum og ófyrirsjáanlegum tímum. Nú um stundir þekkja fáir það betur en Grænlendingar.“
Stjórn Eflingar vísar þar sérstaklega til hótana Bandaríkjanna og forseta landsins, Donald Trump, um mögulega innrás eða yfirráð yfir grænlensku landsvæði:
„Bandaríkin og forseti þeirra, Donald Trump, hóta innrás Bandaríkjanna á grænlenskt landsvæði.“
Í ályktuninni segir að afleiðingar slíkra aðgerða séu ófyrirsjáanlegar og geti haft alvarleg áhrif á sjálfsákvörðunarrétt Grænlands og stöðu launafólks í landinu:
„Við vitum ekki hverjar afleiðingar slíkra aðgerða yrðu. Það gæti ekki aðeins leitt til missis sjálfsákvörðunarréttar Grænlands, heldur einnig til versnandi aðstæðna fyrir grænlenskt verkafólk.“
Þá varar stjórn Eflingar við því að aukin aðkoma bandarískra fyrirtækja að grænlenskum vinnumarkaði geti grafið undan réttindum launafólks:
„Koma bandarískra fyrirtækja inn á grænlenskan markaði gæti leitt til veikari verndar launafólks, sem væri brotthvarf frá þeim sterku stéttarfélagshefðum sem við eigum sameiginlegar í norrænu samstarfi.“
Efling lýsir yfir óskoraðri samstöðu með grænlenskum félögum sínum og segir baráttan snúast um sameiginleg grundvallargildi:
„Við munum mæta þessari ógn ásamt ykkur og gera það sem við gerum alltaf: Að standa saman og gefast aldrei upp.“
Að mati stjórnar Eflingar má framtíð Grænlands ekki ráðast af stórveldum eða hernaðarbandalögum:
„Framtíð Grænlands verður umfram allt að verða ákvörðuð af Grænlendingum sjálfum. Ekki af Bandaríkjunum og ekki af NATO.“
Í lok ályktunarinnar er stuðningur Eflingar ítrekaður af fullum þunga:
„Stjórn Eflingar stéttarfélags stendur þétt við hlið ykkar í þessari afar erfiðu stöðu og þið getið treyst á fullan stuðning okkar. Fyrir frjálst Grænland með sterk réttindi launafólks!“

Komment