
Lögregla sinnti fjölmörgum verkefnum á höfuðborgarsvæðinu í nótt og í gærkvöldi, þar á meðal alvarlegu vinnuslysi, innbroti og fjölda akstursbrota.
Tilkynnt var um innbrot í fyrirtæki í Árbænum. Gerandi er ókunnur og málið er í rannsókn.
Alvarlegt vinnuslys varð í Grafarvogi þegar maður missti vinstri höndina inn í vals og slasaðist jafnframt á þremur fingrum. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku til aðhlynningar.
Í úthverfi Reykjavíkur var tilkynnt um umferðarslys. Engin slys urðu á fólki, en ökumaður sem olli árekstrinum er grunaður um ölvun við akstur og var vistaður í fangageymslu.
Lögregla stöðvaði nokkra ökumenn fyrir of hraðan akstur, meðal annars í Árbænum og Kópavogi. Hæsti hraði sem mældist var 111 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Málin voru afgreidd með sektum.
Fjöldi ökumanna var einnig stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis í nokkrum hverfum borgarinnar og Kópavogi. Flestir voru látnir lausir að lokinni blóðsýnatöku, en í tveimur tilvikum voru ökumenn sviptir ökuréttindum. Í einu máli í Reykjavík réðst ökumaður á lögreglumann og sló hann í andlitið. Sá var vistaður í fangageymslu.
Þá var einn ökumaður stöðvaður í miðbænum þar sem í ljós kom að hann var án gildra ökuréttinda og var málið afgreitt með sekt.
Að auki var maður í annarlegu ástandi handtekinn í miðbænum eftir að hann neitaði að gefa upp nafn sitt eða heimilisfang og var hann vistaður í fangageymslu.
Loks var tilkynnt um líkamsárás í Hafnarfirði. Um minniháttar meiðsli var að ræða og málið afgreitt á vettvangi.

Komment