
Ekki hefur tekist að manna bakvakt dýralækna á vaktsvæði 11, sem nær yfir sveitarfélagið Hornafjörð og þann hluta Múlaþings sem liggur sunnan Djúpavogs, yfir jólahátíðina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá héraðsdýralæknum.
Í kjölfar samráðs við starfandi dýralækna á svæðinu hefur komið í ljós að enginn dýralæknir verður á bakvakt dagana 24. til 28. desember.
Dýraeigendum sem þurfa á aðstoð að halda á þessum tíma er bent á að leita til þeirra dýralækna sem þeir venjulega skipta við, eða annarra dýralækna sem starfa almennt.
Í tilkynningunni er bent á að samkvæmt lögum nr. 66/1998 og reglugerð nr. 406/2020 ber dýralæknum, sem stunda almennar dýralækningar, skylda til að taka þátt í vaktafyrirkomulagi á sínu vaktsvæði. Til að tryggja velferð dýra skuli jafnan einn dýralæknir vera á bakvakt utan dagvinnutíma. Vaktskylda telst þó uppfyllt hafi dýralæknir tekið að sér 960 klukkustundir á ári.
Héraðsdýralæknar skipuleggja bakvaktir í samráði við sjálfstætt starfandi dýralækna á svæðinu, og er heimilt að skipta bakvöktum milli fleiri lækna innan sama vaktsvæðis. Í þetta sinn reyndist hins vegar ekki unnt að tryggja mönnun yfir jóladagana.

Komment