
Alls voru 224.659 einstaklingar skráðir í Þjóðkirkjuna þann 1. maí síðastliðinn, samkvæmt nýjustu tölum Þjóðskrár. Frá 1. desember 2024 hefur skráðum meðlimum Þjóðkirkjunnar fækkað um 304 manns. Þetta kemur fram í frétt frá Þjóðskrá.
Kaþólska kirkjan er næst fjölmennasta trúfélag landsins með 15.669 skráða meðlimi og í þriðja sæti er Fríkirkjan í Reykjavík með 9.941 meðlim.
Mest fjölgun í kaþólsku kirkjunni
Kaþólska kirkjan hefur einnig bætt við sig flestum meðlimum frá desember 2024 – alls 121. Hlutfallslega var þó mest fjölgun hjá Wat Phra búddistasamtökunum, sem jukust um 11,5% á sama tímabili.
Fleiri utan trúfélaga – margir ótilgreindir
Þann 1. maí voru 30.849 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga, sem er aukning um 0,2% frá desember. Þeir sem eru utan trúfélaga hafa meðvitað tekið afstöðu til þeirrar skráningar.
Auk þess voru 91.139 einstaklingar með ótilgreinda skráningu, sem þýðir að þeir hafa ekki tekið afstöðu til skráningar í trú- eða lífsskoðunarfélag.

Komment