
Flugvél á vegum Ryanair, sem var á leið til Tenerife, neyddist til að nauðlenda eftir að hafa lent í mikilli ókyrrð sem slasaði marga farþega en samkvæmt upplýsingum fjölmiðla þeyttust farþegar úr sætum sínum í ókyrrðinni.
Atvikið átti sér stað á sunnudaginn en flugvélin lagði af stað frá Birmingham-flugvelli í Bretlandi og átti að lenda á Tenerife. Þegar flugvélin var komin í franska lofthelgi varð hún hins vegar fyrir mikilli ókyrrð.
Nokkrir farþegar slösuðust, sem varð til þess að flugáhöfnin lýsti yfir neyðarástandi. Þar sem tilkynnt var um meiðsli um borð var ákveðið að hætta við að fljúga til Tenerife og haldið aftur í átt að Bretlandi.
Flugvélin lenti aftur á Birmingham-flugvelli um það bil einum og hálfum tíma eftir brottför. Læknar og hjúkrunarfræðingar tóku á móti vélinni til að aðstoða slasaða farþega um leið og vélin lenti. Yfirvöld hafa enn ekki staðfest hversu alvarleg meiðsli farþega voru.
Ekki er vitað hvort Íslendingar voru um borð í vélinni.

Komment