
Í nýjustu könnun Maskínu á fylgi stjórnmálaflokka sem eru eða voru á Alþingi kemur fram að Samfylkingin bætir lítillega við sig fylgi og mælist nú með yfir 27 prósent fylgi. Sjálfstæðisflokkur missir tvö prósentustig frá síðustu könnun - en segja má að takmarkaðar hreyfingar séu annars á fylgi flokkanna almennt.
Til samans þá njóta flokkarnir þrír sem mynda ríkisstjórnina, Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins, stuðnings rúmlega 51 prósent svarenda í könnuninni.
Þetta er í fyrsta sinn sem meira en helmingur segist styðja ríkisstjórnina í könnunum fyrirtækisins frá því í desember síðastliðnum, er stjórnin var mynduð.
Samfylkingin hefur nú bætt um það bil sjö prósentum við sig frá því í þingkosningunum er fram fóru í lok nóvember; þá fékk flokkurinn fimmtung atkvæða.
Sjálfstæðisflokkurinn er nú með 18,9 prósent - örlítið minna fylgi en hann fékk í kosningunum.
Viðreisn mælist með tæp 17 prósent í nýjustu könnuninni,
Flokkur fólksins hefur misst talsvert fylgi frá kosningum; þá fékk flokkurinn um 14 prósent atkvæða: Mælist nú með rétt rúmlega 7 prósent fylgi.
Miðflokkurinn mælist nú með tæplega 10 prósent en Framsóknarflokkurinn stendur í stað á milli kannana; eru með tæplega 7 prósent.
Píratar og Vinstri græn hafa fært sig aðeins upp á skaftið; Píratar mælast nú með 4,6 prósent fylgi og VG er nú með 3,6 prósent fylgi.
Könnun Maskínu fór fram dagana 9. til 22. maí, 1.962 svarendur tóku afstöðu til flokks.
Komment