
Að minnsta kosti 89 manns hafa veikst eftir að hafa borðað jólamat á veitingastað á næst stærstu eyju Svíþjóðar, Eylandi (Öland), að því er Barometern greinir frá.
Á fimmtudag bárust fjölmargar tilkynningar um veikindi eftir heimsókn á jólahlaðborðið, samkvæmt upplýsingum frá matvælaeftirliti sveitarfélagsins Mörbylånga.
Katarina Proos Vedin, matvælaeftirlitsmaður, segir líklegast að um nóróveiru (svokallaða „vetrarkveisu“) sé að ræða.
„Þeir hafa fengið yfir 3.000 gesti. Þegar við teljum saman þá sem hafa sýnt einkenni eða lýst veikindum, eru þeir 89. En það geta alltaf verið fleiri,“ segir hún í samtali við blaðið.
Veitingastaðnum var lokað um helgina á meðan þrifið var en hann gat opnað aftur í dag.

Komment