
Útlit er fyrir óvenjulega hlýju veðri á Austurlandi um jólin og er jafnvel mögulegt að hitinn fari upp í tuttugu gráður, ef allar aðstæður falla saman. Hlýindunum fylgir þó snarpt hvassviðri og hafa íbúar verið hvattir til að festa lausamuni, enda hefur Veðurstofan gefið út gula viðvörun vegna veðursins. Þetta kemur fram í umfjöllun Austurfréttar.
„Það er mjög hlýtt loft hátt yfir landinu. Til að það blandist niður þarf hvassan vind til að mynda hnjúkaþey. Þetta verður ekki notalegur hiti því það þarf mikinn vind til að þrýsta honum niður,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Samkvæmt spám getur hitinn farið í 17–18 stig á stöku stað, og þó desembermetið sé 19,7 stig telur Teitur mögulegt að hitinn nái 20 stigum þar sem fullnægjandi mælar eru til staðar, en þá þurfi allt að smella saman.
Teitur segir erfitt að segja til um hvar hlýindin verði mest, en nefnir að Skjaldþingsstaðir á Vopnafirði, Seyðisfjörður og jafnvel Borgarfjörður eystri geti notið góðs af hnjúkaþey.
Hlýja loftið kemur langt að, frá Atlantshafinu á breiddargráðu Spánar, en hæðir beggja megin Atlantshafsins, einkum við Skandinavíu og Bretland, beina því til Íslands.
Kólnar eftir jólin
Gular viðvaranir gilda fyrir Austurland að Glettingi og Austfirði, þar sem spáð er suðlægum og suðvestlægum vindi, 15–23 m/s, með hvössum hviðum við fjöll sem geta farið yfir 30 m/s. Slíkar aðstæður geta valdið vandræðum fyrir ökumenn og lausamunir eru taldir í hættu á að fjúka.
„Það hvessir í kvöld og verður hvasst allan morgundaginn. Á jóladag lægir aðeins en á annan í jólum verður kominn hægari vindur og þá fer að kólna. Yfir helgina verða ljúfir dagar með hita í kringum frostmark,“ segir Teitur.
Aðvörun vegna ofanflóða og lausra muna
Skriðuvakt Veðurstofunnar hefur einnig varað við hættu á ofanflóðum víða um land, þó að mestu á vestanverðu landinu þar sem úrkoma verður meiri; austanlands verður áfram þurrt. Mikill vindur gæti einnig valdið skemmdum á mannvirkjum, t.d. með því að losa þakplötur, en minni hætta er talin á slíku eystra.
„Vindur er minni á Austurlandi en Norðurlandi. En það er rétt að kippa inn jólaskrautinu, ef það er laust og líklegt til að taka á sig vind,“ segir Teitur.

Komment