
Nýtt 87 rýma hjúkrunarheimili verður opnað við Nauthólsveg í Reykjavík en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
Hjúkrunarheimilið verður í byggingu sem áður hýsti skrifstofur Icelandair við Nauthólsveg 50 og verður ráðist í gagngerar endurbætur á húsnæðinu og því umbreytt til þess að sinna nýju hlutverki. Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita fasteignafélags, hófu framkvæmdirnar í dag með því að brjóta niður vegg sem þurfti að víkja við endurbæturnar.
„Verulega tímabært var að hefja fyrir alvöru uppbyggingu hjúkrunarheimila á Íslandi og nú er verkið hafið. Málefni eldra fólks eru mér hjartans mál og hafa verið það lengi og nú er verkstjórn tekin við sem gengur í málið. Ég er afar stolt í dag,“ sagði Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Nýja hjúkrunarheimilið verður ríflega 6.500 fermetrar að sögn yfirvalda og öll herbergin einbýli með baðherbergjum. Reitir eiga fasteignina en ríkið leigir húsið með leigusamningi til 20 ára.
Komment