
Kristinn Hrafnsson skrifar beitta Facebook-færslu troðfulla af kaldhæðni, nú þegar Íslendingar vakna glaðir í bragði yfir því að VÆB-bræður komust upp úr undanúrslitunum í Eurovision.
Ritstjórinn bendir á þá nöturlegu staðreynd að á meðan þjóðin svaf hafi Ísraelar slátrað 65 manns á Gaza.
„Velkomin á fætur. Á meðan íslenska þjóðin svaf með sælubros á vör og gleði í hjarta yfir góðum árangri í söngvakeppni, dunduðu ísraelar sér við að slátra 65 manns á Gaza. Meðal skotmarka voru tvö sjúkrahús, Evrópu spítalinn og Nasser spítalinn. Samkvæmt Guardian voru 20 drepnir í þeim árásum.“
Kristinn veltir síðan fyrir sig hvort Ísrael komist áfram í seinni undanúrslitakvöldi Eurovision annað kvöld og notar tækifærið og skýtur bylmingsfast á þann hluta þjóðarinnar sem horfir á Eurovision, þrátt fyrir þjóðarmorð Ísraela.
„Kemst Ísrael áfram annað kvöld með lagið Ný dögun? Það verður nú aldeilis gleðilegt að geta trallað með þjóðarmorðssveitinni á laugardaginn, fengið sér snakk og búbblur og glaðst á meðan verið er að myrða börn í tugatali í beinni útsendingu á hinni rásinni.
Firring heimsins tekur stundum á sig ógeðslegar myndir.
Við eru öll samsek.“
Komment