
Veðurstofan telur líklegast að áframhaldandi kvikusöfnun undir Sundhnúkagígum endi með kvikuhlaupi og eldgosi.
Fram kemur í frétt mbl.is að fjórir skjálftar hafi mælst með skömmu millibili snemma í morgun á Sundhnúkagígaröðinni. Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segist hafa séð skýra aukningu á skjálftavirkninni síðastliðna viku. Segir hún að jarðskjálftavirknin sé að færast nær Grindavík, bæði norðvestan og norðaustan við bæinn.
Samkvæmt Steinunni er talið að fyrirvarinn á næsta gosi verði lítill, líkt og hefur verið í síðustu gosum á svæðinu. „Fyrirvarinn gæti verið 30-40 mínútur frá fyrstu merkjum þar til gos hefst,“ segir húní viðtali við mbl.is.
Grindvíkingur segir frá því í dag í Facebook-hópnum Jarðfræði á Íslandi, virkni, framtíð og fortíð, að skjálfti upp á 0,97, hafi mælst beint undir húsinu hans.
„Skjálfti uppá 0,97 í Norðurhópinu nánar tiltekið undir húsinu mínu og nákvæmlega þar sem þessi sprunga er í gegnum húsið,“ skrifaði Grindvíkingurinn og birti ljósmyndir af sprungunum sem hann tók síðasta sumar.
Komment