Jón Þór Gíslason hefur verið dæmdur í fangelsi en málið hans var tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands.
Hann var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 8. október 2023, inni í bifreið er stödd var á akbraut við Valsheiði í Hveragerði, veist að manni, þar sem hann sat í farþegasæti bifreiðarinnar, endurtekið kýlt hann í höfuð og andlit, og því næst dregið A út úr bifreiðinni þannig að hann féll í götuna, og þar sem maðurinn lá á götunni utan við bifreiðina, haldið árásinni áfram, endurtekið kýlt fórnarlamb sitt í andlit og sparkað í maga hans, allt framangreint með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut kúlu aftanvert á höfði, kúlu ofan við hægra eyra, mar á enni og hægra gagnauga, glóðarauga hægra megin, eymsli yfir nefi, bólgu yfir kjálka hægra megin, mar hægra megin á mjóbaki, bólgið vinstra hné, yfirborðsáverka neðan við vinstra hné og yfirborðsáverka og bólgu í hægri olnbogabót.
Í dómnum kemur einnig fram að mennirnir hafi verið saman á bjórhátíð sem barinn Ölverk í Hveragerði heldur og tekið leigubíl saman eftir að barinn lokaði.
Þá var hann einnig ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa, að kvöldi sunnudagsins 5. maí 2024 á Selfossi veist að manni, og ítrekað kýlt hann í andlit, með þeim afleiðingum að hann hlaut mar á hægri kinn og eymsli yfir vinstri kjálkalið.
Hann neitaði sök í báðum málum en játaði aðra ákæru en í henni var hann sakaður um að hafa verið að aka án ökuréttinda.
Nokkur vitni voru að báðum líkamsárásunum og það metið svo að Jón Þór væri sekur um báðar árásirnar.
Hann var því dæmdur í átta mánaða óskilorðsbundið fangelsi en hann hefur sjö sinnum áður sætt refsingu, þar af þrisvar vegna ofbeldisbrota og fimm sinnum vegna aksturs sviptur ökurétti.
Hann þarf að borga fórnarlambinu sem hann dró úr bílnum 871.490 krónur með vöxtum og einnig málskostnað.

Komment