
Jón Albert Óskarsson ökuleiðsögumaður frá Dalvík birti myndskeið fyrir nokkru sem sýnir illa búinn bílaleigubíl á hliðinni í Námaskarði fyrir norðan. Hafði bíllinn runnið út af og velt á hliðina og runnið niður brekkuna dálítinn spöl. Engum varð meint af.
„Þetta var annar bílaleigubíllinn á sumardekkjum sem ég hjálpaði fyrir hádegi, hinn var bara fastur í slabbi og ökumaðurinn á útslættinum ...“ skrifaði Jón Albert við myndbandið.
Mannlíf heyrði í Jóni Alberti símaleiðis og ræddi við hann um málið. „Ég hef ekki tölu yfir því hversu oft ég hef séð svipaða hluti,“ segir Jón Albert aðspurður hvort þetta sé algeng sjón fyrir norðan. Nefndi hann nokkur dæmi sem hann hefur séð bæði Norðan- og Austanlands þar sem ferðamenn höfðu annað hvort fest bílaleigubíl sinn og þannig stöðvað umferð, eða hreinlega lent í árekstri eða utanvegar. Sagði hann alla bílana hafa átt það sameiginlegt að vera á sumardekkjum. Gagnrýnir hann bílaleigurnar fyrir að setja ekki nagla undir dekkinn þegar spáin bendir til snjókomu, þó svo að tími nagladekkjana hafi ekki verið kominn í öllum tilfellum. „Ef það er minnsti grunur um slæmt veður hefur maður sett nagladekkin undir, alveg sama þó maður gæti fengið sekt, öryggið skiptir öllu máli,“ sagði Jón Albert að lokum.
Hér má sjá myndskeiðið en eins og sjá má eru farþegarnir ennþá í bílnum.

Komment