
Landssamband veiðifélaga samþykkti á fundi sínum á föstudag ályktun þar sem krafist er umfangsmikillar endurskoðunar á frumvarpi um lög um lagareldi, svonefnt sjókvíaeldi, sem nú er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.
Fundurinn, sem haldinn var 16. janúar, var vel sóttur af formönnum og félagsfólki veiðifélaga víðs vegar að af landinu, samkvæmt fréttatilkynningu frá sambandinu. Þar ríkti samstaða um að frumvarpið, eins og það liggur fyrir, tryggi ekki nægjanlega vernd villtra laxastofna né skýra stefnu til framtíðar.
Í ályktuninni er meðal annars krafist að stöðvuð verði frekari stækkun opins sjókvíaeldis á frjóum laxi og að sett verði skýr og tímasett stefna um tækniskipti yfir í lokuð eldiskerfi og notkun ófrjós fisks. Þá er lögð áhersla á að áhættumat erfðablöndunar verði bindandi og aldrei notað sem grundvöllur fyrir aukna framleiðslu, auk þess sem aðgerðir í ám eigi ekki að teljast mótvægisaðgerðir.
Landssambandið krefst þess jafnframt að friðunarsvæði verði skýrð og lögfest, og að vernd þeirra verði aukin, meðal annars í Eyjafirði, Seyðisfirði og Öxarfirði. Þá er lagt til að undanþáguheimildir sem geti opnað friðuð svæði fyrir eldi verði felldar brott.
Í ályktuninni er einnig bent á þörf fyrir að draga úr réttaróvissu um laxahlut, koma í veg fyrir framleiðsluaukandi undanþágur sem gætu aukið eldi frjós lax umfram heildarlaxamagn og tryggja að viðurlög vegna stroks úr sjókvíum verði raunverulega letjandi.
Að auki er varað við því að sett verði óheft aðgengi að ám og veiðistöðum án samráðs, meðalhófs og skýrra skilyrða. Landssambandið krefst einnig að skaðabótaleiðir verði raunhæfar með léttari sönnunarbyrði og að burðarþolsmat taki til alls álags á vistkerfi, ekki einungis einstakra þátta.
Í ályktuninni er lögð áhersla á að efla þurfi formlegt samráð við hagsmunaaðila, fremur en að veikja það, og að tryggð verði skýr og nægjanleg fjármögnun til vöktunar, rannsókna og nauðsynlegra verndaraðgerða fyrir villta laxastofna og lífríki ferskvatns.

Komment