
Reykjavíkurborg hefur hafið vinnu við að búa til nýja kynfræðsluhandbók en hún ber heitið Kynverund og kúltúr en greint er frá þessu í tilkynningu frá borginni.
Að sögn þeirra Maríönnu Guðbergsdóttur og Indíönu Rós Ægisdóttur, sem stýra verkefninu, er þörfin brýn. Um 30 prósent grunnskólabarna á Íslandi eru með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn. Þær segja að hefðbundin kynfræðsla nái oft ekki til allra nemenda, ýmist vegna menningarlegra viðhorfa, tungumálaörðugleika eða misskilnings. Þetta geti skapað óöryggi og útilokað börn frá fræðslu sem þau eigi rétt á.
„Við viljum brúa þessi bil,“ segir Maríanna. „Ef fræðslan stemmir ekki við reynslu og gildi barna, eiga þau erfitt með að tengja við efnið. Þessi handbók mun hjálpa starfsfólki að móta nám sem bæði virðir bakgrunn og styrkir sjálfsmynd nemenda.“
„Við viljum að fleiri nemendur fái kynfræðslu sem þau geta tengt við,“ segir Indíana.„Markmiðið er að skapa örugg rými þar sem öll börn fá tækifæri til að skilja eigin réttindi og kynverund. Þetta snýst ekki um að sleppa viðkvæmum umræðuefnum, heldur að gera fræðsluna aðgengilegri og raunverulega inngildandi.“
Handbókin verður rafræn og aðgengileg öllum, með möguleika á reglulegri uppfærslu í takt við nýjustu þekkingu að sögn borgarinnar.
Komment