
Landsbankinn skilaði 38 milljarða króna hagnaði eftir skatta á síðasta ári, samanborið við 37,5 milljarða króna árið þar á undan. Arðsemi eiginfjár nam 11,6% árið 2025 en var 12,1% árið áður.
Á fjórða ársfjórðungi 2025 var hagnaðurinn 8,6 milljarðar króna og arðsemi eiginfjár 10,1%.
Samtals greiddi bankinn um 19 milljarða króna í skatta, bæði tekjuskatt og sérstaka skatta á fjármálafyrirtæki. Kostnaðarhlutfallið hækkaði lítillega milli ára en var áfram lágt, eða 34,3%.
Þetta kemur fram í tilkynningu bankans samhliða birtingu ársuppgjörs fyrir árið 2025.
„Uppgjör Landsbankans fyrir árið 2025 er gott og endurspeglar traustan og stöðugan rekstur í krefjandi rekstrarumhverfi. Arðsemi eiginfjár bankans á síðasta ári var 11,6% sem var í samræmi við áætlanir og kostnaðarhlutfallið var 34,3% sem er með því lægsta sem þekkist meðal sambærilegra banka á heimsvísu. Hagnaður var 38 milljarðar króna og í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans mun bankaráð leggja til við aðalfund að greiða um 50% af þeirri fjárhæð í arð til hluthafa, eða um 19 milljarða króna. Bankaráð hefur jafnframt til skoðunar að leggja til sérstaka arðgreiðslu á aðalfundi,“ sagði Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
„Það er mikilvægt að betra jafnvægi náist í efnahagslífinu, að verðbólga lækki og þannig sé hægt að lækka vaxtastigið í landinu. Vonandi skapast aðstæður til þess sem fyrst. Það yrði kærkomið fyrir viðskiptavini bankans sem eru með lán og myndi gefa fyrirtækjum aukið svigrúm til fjárfestinga og stuðla bæði að auknum hagvexti og fleiri tækifærum til framtíðar.“

Komment