
Mikil umræða skapaðist um helgina í Facebook-hópi sem er ætlaður Teslu eigendum en einn meðlimur hópsins birti mynd af Teslu, sem er merktur leigubílastöðinni Hreyfli, „djúpt í Þórsmörk“ að sögn meðlimsins.
Óhætt er að segja að meðlimir hópsins hafi verið hissa enda sjást leigubílar ekki oft á svæðinu og ennþá sjaldnar Teslur.
Aron Ágústsson, meðlimur í hópnum, segist hafa orðið vitni að leigubílnum fara yfir nokkrar ár. „Ég var þarna áðan, hann var á leiðinni í Þórsmörk og stoppaði þarna, farþeginn fór labbandi frá þessum stað, held að hann sé ekki bilaður - ennþá - en þetta er eitt það vitlausasta sem ég hef orðið vitni af. Hann er btw búinn að fara yfir svona 10 ár, þar á meðal Steinholtsá ef ég man rétt.“
Síðar í umræðuþræðinum birti Þórður Tómasson myndband af leigubílnum að aka yfir á. Ekki eru margir hrifnir af hegðun bílstjórans og telja ákvörðunartöku hans með verra móti, svo ekki sé meira sagt. Nefna einhverjir að bílstjóri hefði auðveldlega geta eyðilagt bílinn og þeir myndu ekki vilja kaupa notaða Teslu sem hefði verið ekið á þennan máta.
Mannlíf hafði samband við skrifstofu Hreyfils til að spyrja nánar út í málið. Þar fengust þau svör að ekki væri algengt að leigubílstjórar keyrðu á þessu svæði og mikið hugrekki þurfi til að gera slíkt á Teslu og öðrum rafmagnsbílum.
„Við fáum stundum fyrirspurnir um að keyra út að Skógum, svo ætlar fólk að labba yfir Fimmvörðuhálsinn. Ekki svo mikið Þórsmörk, Landmannalaugar aðeins, en ég hef ekki heyrt mikið af Þórsmörk. Maður myndi fyrst og fremst benda á Ferðafélagið, því þeir eru oft með fastar ferðir þangað á rútum,“ sagði skrifstofustarfsmaðurinn.
Samkvæmt Hreyfli eru 42 Teslur skráðar sem leigubílar hjá stöðinni í dag.
Komment