
Sex einstaklingar gista í fangaklefa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina en alls voru 92 mál bókuð í kerfum lögreglunnar. Hér má sjá nokkur dæmi úr dagbók lögreglunnar.
Lögreglan á Hverfisgötu barst tilkynning um eld fyrir utan verslunarhúsnæði. Þegar komið var á vettvang reyndist enginn eldur, heldur var verið að grilla gríðarmikið magn af hamborgurum sem selja átti á landsleik Íslands og Úkraínu.
Óskað var eftir aðstoð sömu lögreglu á hótel vegna einstaklings sem svaf ölvunarsvefni og ekki tókst að vekja. Tókst lögreglunni að vekja einstaklinginn og vísaði hún honum á dyr.
Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ofurölvaðs einstaklings í heimahúsi en þar var hann til vandræða. Veittist hinn sótölvaði að lögreglumönnum og er nú vistaður í fangaklefa þar til rennur af honum og hægt verður að ræða við hann.
Einnig voru 35 ökumenn stöðvaðir fyrir að aka í göngugötu í miðbænum og eiga þeir von á sekt í kjölfarið.
Almennu eftirliti sinnt.
Þá voru 35 ökumenn stöðvaðir fyrir að aka í göngugötu og eiga þeir von á sekt í kjölfarið.
Lögreglan sem annast útköll í Hafnarfirði og í Garðabæ handtók einstakling á skemmtistað sem hafði ráðist á dyraverði. Er hann nú vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Tilkynnt var til lögreglunnar sem starfar í Kópavogi og í Breiðholtinu, um umferðaróhapp þar sem bifreið var ekið á mann á rafhlaupahjóli. Var einstaklingurinn fluttur á bráðamóttöku til skoðunar en ekki er vitað um meiðsli.
Einnig var óskað eftir aðstoð sömu lögreglu í verslunarmiðstöð vegna drukkins einstaklings sem hafði læst sig inni á salerni og neitaði að yfirgefa verslunarmiðstöðina.
Lögreglan sem annast útköll í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi, barst tilkynning um unglingasamkvæmi og mikinn hávaða. Kom í ljós að um þrjá vini var að ræða og lætin komu í kjölfar taps Íslands gegn Úkraínu í knattspyrnu. Lofuðu vinirnir að lækka í sér.
Komment