
Sigríður Þrúður Stefánsdóttir, mannauðsstjóri Kópavogsbæjar, reif niður auglýsingar fyrir Kvennaverkfallið sem haldið verður á föstudaginn en mbl.is greinir frá þessu.
„Þetta er alvarlegt finnst mér, að vera að taka niður auglýsingar,“ segir Kristjana H. Kristjánsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Kópavogsbæ, við mbl.is en auglýsingunum hafði verið komið fyrir á kaffistofum starfsmanna. „Þessi viðbrögð hafa komið okkur á óvart og við skiljum þetta ekki alveg. Ég varla trúi þessu, að það sé 2025 og að við séum að standa í þessu. Þannig að við erum eiginlega meira hissa og þetta fer yfir öll velsæmismörk að vera að ritskoða eitthvað svona á kaffistofunni.“
Í svari frá Sigríði Björg Tómasdóttur, upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar við fyrirspurn mbl.is um málið segir að kaffistofur starfsmanna séu ekki vettvangur fyrir auglýsingar frá stéttarfélögum eða öðrum utanaðkomandi félagasamtökum og hafi þess vegna verið ákveðið að taka þær niður.
Annar starfsmaður bæjarsins sem rætt var við sagði að um ógnarstjórnun væri að ræða.
Komment