
María Lilja Ingveldar-Þrastardóttir Kemp, aðgerðarsinni og fjölmiðlakona hjá Samstöðin, greinir frá því í Facebook-færslu að hún hafi verið fjarverandi af skjánum vegna veikinda og dvalið á hjartadeild Landspítalinn undanfarnar tvær vikur.
Hún segir fjölmarga hafa haft samband og spurt um líðan hennar og tekur skýrt fram að hún sé ekki hætt störfum.
„Mig langar að þakka þeim fjölmörgu sem hafa spurt um mig og sent skilaboð vegna þess þau sakna mín af skjánum. Ég er ekki hætt á Samstöðinni, er bara búin að vera veik.“
María Lilja segir veikindin tengjast sýkingu sem upphaflega kom upp í desember og hafi ekki tekist að stöðva í tæka tíð.
„Hef verið á hjartadeildinni á Landspítalanum sl. tvær vikur og hér verð ég amk í eina í viðbót vegna dularfullrar sýkingar sem (í stuttu máli) uppgötvaðist fyrst í desember og tókst ekki nógu vel til við að stöðva strax.“
Hún lýsir alvarlegum afleiðingum veikindanna og segir ástandið hafa verið hættulegt um tíma.
„Það varð til þess að gollurhús hjartans og lungu fylltust vökva og ég var nokkuð hætt komin í blábyrjun árs.“
Að sögn Maríu Lilju hefur ástandið nú batnað verulega
„Úr hjartanu hefur vökvinn nú að mestu verið fjarlægður með dreni og lungun virðast svara lyfjunum ágætlega.“
Hún lýsir jafnframt góðri umönnun á spítalanum og hrósar heilbrigðisstarfsfólki sérstaklega.
„Það vill auðvitað enginn lenda á spítala en ég get sagt með sanni að það væsir alls ekki um mig hér og ég er frekar hress miðað við allt.“
Og bætir við:
„Það mætti segja margt um ástand spítalanna en það ætla ég ekki að gera að öðru leiti hér en til að fullyrða hve ríkt samfélag við erum ef ekki bara fyrir það eitt að eiga allt þetta góða faglega heilbrigðisstarfsfólk sem heldur starfsemi spítalanna gangandi oft að er virðist af hugviti, hugsjónum og manngæskunni einni saman. Takk!“
María Lilja segir óljóst hvenær hún snúi aftur til starfa og að endurhæfing ráði för.
„Ég hlakka til að koma aftur á skjáinn og bara aftur í lífið mitt eins og það var áður. Hvenær það verður er ennþá óljóst og veltur á endurhæfingu. Þetta er langhlaup og ég ætla að taka því alvarlega því heilsan skiptir öllu máli. Það veit ég núna.“
Í lok færslunnar biður hún fólk að láta af gjöfum á spítalann og beina stuðningi sínum annað.
„Mig vantar ekkert á spítalann svo ég bið ykkur í staðinn fyrir að færa mér gjafir og sætindi eins og mörg hafa núþegar gert (takk) bið ég fólk að leggja aurana frekar inn á Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, Félagið Ísland-Palestína eða Vonarbrú. Lifi frjáls Palestína.“
Að endingu nefnir hún að hún hafi nýlega fengið bæjarleyfi af spítalanum.
„Í gærkvöld fékk ég bæjarleyfi og fór og sá Óresteiu með Kríu minni. Ótrúleg sýning. Farið í leikhús!“

Komment