
Við upphaf þingfundar í morgun hófu þingmenn stjórnarandstöðu harða gagnrýni á embættisfærslur Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra, vegna málsins um skólameistara Borgarholtsskóla. Fljótlega kom þó í ljós að ráðherrann gat ekki mætt í salinn, þar sem hann liggur á sjúkrahúsi. Forseti Alþingis tók þó sérstaklega fram að hann væri ekki alvarlega veikur. Vísir greindi frá þessu.
Ólafur Adolfsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna og sagði: „Allir sem lesa þessa umfjöllun þeir vita að það er eitthvað stórkostleg að hjá ráðherrum Flokks fólksins,“ og vísaði þar í viðtal Morgunblaðsins við Ársæl Guðmundsson, fráfarandi skólameistara Borgarholtsskóla. Ingibjörg Isaksen og Guðlaugur Þór Þórðarson tóku undir gagnrýnina og lýstu alvarlegum áhyggjum sínum af störfum ráðherrans.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, ítrekaði ítrekað að málið heyrði ekki undir fundarstjórn forseta. En eftir að þrír þingmenn höfðu tekið til máls upplýsti hún loks að ráðherrann væri forfallaður vegna þess að hann væri á sjúkrahúsi.
Fleiri þingmenn sem síðan tóku til máls sendu ráðherranum batakveðjur en lýstu óánægju með að upplýsingarnar hefðu komið fram á miðjum fundi. Gagnrýni á embættisfærslur hans hélt þó áfram af hálfu stjórnarandstöðunnar.
Að lokum steig Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í ræðustól og sagði að ráðherrann væri ekki alvarlega veikur, en þyrfti þó að dvelja á spítala í nokkra daga.
„Það er ekki gott að við séum að ræða heilsufar einstakra ráðherra í pontu. Það er ekki um alvarlegt mál að ræða, ég vil bara að það komi fram hér svo það sé engin óþarfa dramatík um stöðu ráðherra. En það er vissulega svo að hann þurfti að fara á spítala í nokkra daga,“ sagði forsætisráðherra og bætti við að „svona aðstæður bara koma upp og þetta er óviðráðanlegt.“
Hún tók jafnframt fram: „Ef að um er spurt þá liggur alltaf fyrir hver staðgengill ráðherra er.“

Komment