
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, setur fram harða gagnrýni á nýja þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna í færslu á Facebook, þar sem hún segir að stefnan feli í sér skýra fyrirætlun bandarískra stjórnvalda um að „skipta sér af innanríkismálum Evrópuríkja“.
Samkvæmt Alexöndru felst í stefnunni að Bandaríkin hyggist styðja stjórnmálaflokka í Evrópu sem eru andsnúnir ríkjandi stefnu álfunnar, einkum þjóðernissinna og hægriöfgahópa. Hún segir að þessi fyrirætlun sé réttlætt með því að verið sé að „forða Evrópu og heiminum frá falli siðmenningarinnar“.
Alexandra gagnrýnir að Bandaríkin tali um vernd siðmenningar á sama tíma og þau grafi undan alþjóðlegum samningum og stofnunum sem hún segir að heimsfriður síðustu áratuga hafi byggst á.
„Það sem ég heyri þegar öfgahægrið talar um fall siðmenningarinnar er ekki lengur að þeir vilji koma í veg fyrir það,“ skrifar hún. „Mér heyrist þetta miklu fremur hljóma eins og beinlínis hótun um að valda falli siðmenningarinnar ef þeir, og þeirra skoðanasystkini, fái ekki að ráða.“

Komment