
Maðurinn sem lést eftir árás, sem tengd er hópi fólks sem virðist hafa reynt að kúga af honum fé, hét Hjörleifur Haukur Guðmundsson, búsettur í Þorlákshöfn. Hjörleifur var 65 ára þegar hann lést. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi.
Sjö eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins. „Fyrr í dag lagði lögreglustjórinn á Suðurlandi fram kröfur fyrir héraðsdómi Suðurlands um framlengingu gæsluvarðhalds yfir tveimur einstaklingum vegna rannsóknar á meintri fjárkúgun, frelsissviptingu og manndrápi. Alls sæta sjö aðilar, fjórir karlmenn og þrjár konur, gæsluvarðhaldi vegna málsins,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Samkvæmt heimildum Mannlífs var Hjörleifur þekktur undir gælunafninu Gasi af vinum sínum. Hann starfaði á verkstæði flutningafyrirtækis árið 2019 en hafði þá þegar orðið fyrir framheilabilun, sem ágerðist seinna meir.
Kona manns sem starfaði með honum, en vill ekki koma fram undir nafni, sagði í samtali við Mannlíf að hann hefði verið vel liðinn.
„Hann var gull af manni, vildi öllum vel og passaði upp á vini sína og fjölskyldu, dáði barnabörnin og fannst gaman að grínast í vinum sínum. Vinnuþjarkur alveg fram í fingurgóma og hörkuduglegur maður, kvartaði aldrei undan þreytu eða neinu.“
Komment