
Meira en 1.500 einstaklingar úr kvikmyndageiranum, þar á meðal leikararnir Olivia Colman og Mark Ruffalo, hafa lýst því yfir í opnu bréfi sem birt var í dag að þeir muni sniðganga ísraelskar kvikmyndastofnanir sem þeir segja vera „samsek í þjóðarmorði“ á Gaza.
„Við heitum því að sýna ekki kvikmyndir, koma fram á viðburðum eða vinna með ísraelskum kvikmyndastofnunum, þar á meðal kvikmyndahátíðum, kvikmyndahúsum, sjónvarpsstöðvum og framleiðslufyrirtækjum, sem tengjast þjóðarmorði og aðskilnaðarstefnu gegn palestínsku þjóðinni,“ segir í bréfinu sem birtist í breska blaðinu The Guardian.
Meðal undirritaðra eru bresku stjörnurnar Aimee Lou Wood, Josh O’Connor og Tilda Swinton, bandarísku leikararnir Ayo Edebiri og Cynthia Nixon, auk kvikmyndagerðarmannanna Ken Loach og Yorgos Lanthimos.
Bréfið, sem hópurinn Film Workers for Palestine stóð að, er sagt innblásið af kvikmyndagerðarfólki sem hafnaði því að sýna verk sín í Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar.
„Á þessari brýnu stund, þegar margar ríkisstjórnir okkar gera sig samsekar með því að leyfa fjöldamorðin á Gaza, verðum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að takast á við þessa samsekt,“ segir jafnframt í bréfinu.
Sniðgangan nær til allra stofnana sem „reyna að hvítþvo eða réttlæta þjóðarmorð og aðskilnaðarstefnu“ eða starfa í samstarfi við ísraelska ríkið. Nefnd eru dæmi eins og kvikmyndahátíðin í Jerúsalem og heimildamyndahátíðin Docaviv, sem halda áfram samstarfi við stjórnvöld.
„Langflest ísraelsk kvikmyndaframleiðslu- og dreifingarfyrirtæki, söluaðilar, kvikmyndahús og aðrar kvikmyndastofnanir hafa aldrei viðurkennt full réttindi Palestínumanna samkvæmt alþjóðalögum,“ segir í ítarlegu skjali sem fylgdi bréfinu.
Heitið beinist ekki að einstaklingum heldur stofnunum. „Höfnunin beinist að stofnanasamsekt, ekki persónulegri sjálfsmynd,“ segir í yfirlýsingunni, þó tekið sé fram að „örfáar ísraelskar kvikmyndastofnanir séu ekki samsekar.“
Undanfarna mánuði hafa verið birt opin bréf frá ýmsum áhrifamiklum listamönnum úr kvikmynda-, tónlistar- og bókmenntaheiminum þar sem þrýst er á ísraelsku ríkisstjórnina að binda endi á nær tveggja ára stríð á Gaza og bregðast tafarlaust við gríðarlegri mannúðarkrísu.
Í ágúst hvatti ítalski hópurinn Venice4Palestine kvikmyndahátíðina í Feneyjum til að taka afstöðu. Sú undirskriftasöfnun fékk 2.000 nöfn, þar á meðal Óskarsverðlaunahafann Guillermo del Toro.
Árás Hamas 7. október 2023 varð 1.219 manns að bana í Ísrael, flestum óbreyttum borgurum, samkvæmt tölum AFP sem byggja á opinberum gögnum. Í kjölfarið hóf Ísrael linnulausa hernaðaraðgerð sem hefur að minnsta kosti 64.522 Palestínumenn að bana í Gaza, þar af flest konur og börn, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á svæðinu.
Komment