
Fyrrverandi hirðþjónn bresku konungsfjölskyldunnar, Paul Burrell, heldur því fram í nýrri bók sinni að starfsfólk Buckingham-hallar hafi verið ævareitt yfir sérstakri venju Andrésar prins og Söruh Ferguson skömmu eftir að þau giftu sig.
Sarah Ferguson, hertogaynjan af York, fagnar 66 ára afmæli sínu í dag, eftir nokkrar erfiðar vikur.
Í síðasta mánuði hættu nokkur góðgerðarfélög að hafa hana sem verndara eftir að tölvupósti sem hún sendi barnaníðingnum Jeffrey Epstein árið 2011 var lekið í fjölmiðla. Í póstinum skrifaði hún meðal annars: „Ég notaði ekki orðið P um þig,“ aðeins nokkrum vikum eftir að hún hafði heitið því að tala aldrei við hann aftur.
Í bók sinni The Royal Insider: My Life with the Queen, the King and Princess Diana segir Burrell að Sarah hafi vakið mikla óánægju í eldhúsinu eftir brúðkaupið við Andrés árið 1986.
Burrell, sem starfaði í mörg ár innan Buckingham-hallar, segir Andrés hafa verið „algjörlega heillaður af nýju eiginkonunni sem gat ekkert gert rangt“.
Hann bætir þó við: „Starfsfólkið varð ósátt snemma í hjónabandinu. Frá upphafi neituðu þau að yfirgefa brúðarrúmið sitt. Þernurnar fengu ekki að fara inn í svefnherbergið til að búa um rúmið dögum saman. Þegar þau loks sáust, héldu þau stórar kvöldverðar-, hádegis- og teboðaveislur fyrir vini sína.“
Burrell, sem síðar vann hjá Díönu prinsessu á árunum 1987 til 1997, segir að slíkar veislur hafi valdið mikilli gremju meðal starfsfólks sem var vant skipulögðum matartímum.
„Eldhúsfólkið var keyrt út í þrot,“ skrifar hann. „Jafnvel drottningin sjálf skemmti sér ekki svona ríkulega. Eldhússtjórarnir voru trylltir yfir að þurfa að elda eins og á à la carte veitingastað. Þeir voru vanir að bera fram mat á ákveðnum tímum fyrir drottninguna og konungsfjölskylduna. Þetta varð of mikið. Starfsfólkið mótmælti og kvartaði við yfirmann starfsliðsins, sem tilkynnti drottningunni um óánægju þeirra.“
Hann segir drottninguna hafa þurft að grípa inn í og stöðva þetta „óhefta ofát“.
„Hún fyrirleit sóun og ákvað á hverjum degi nákvæmlega hvaða matur skyldi eldaður fyrir hana. Af hverju ættu Andrés og Fergie að fá að haga sér öðruvísi?“
Burrell, sem er nú 67 ára, bætir við að Andrés hafi „aldrei verið auðveldur í samstarfi, sérstaklega ekki við starfsfólkið“.
Hann starfaði upphaflega sem þjónn hjá Elísabetu drottningu og síðar sem hirðþjónn Karls konungs, áður en hann varð einn nánasti trúnaðarmaður Díönu prinsessu.
Í bókinni opinberar hann einnig hvað starfsfólk hallarinnar kallaði Buckingham-höll í gríni.
„Það var ekki bara stökk á milli rúma sem átti sér stað í höllinni,“ skrifar hann, „heldur líka talsverð drykkja sem hjálpaði fólki að losa um hömlur.“
Hann heldur áfram: „Gleymið Buckingham-höll, hún var kölluð ‘Gin Palace’, eftir gininu sem rann óhindrað um daglegt starf hússins. Gin, alltaf Gordon’s, var drykkurinn sem allir völdu.“
Komment