
Fjölskylda Sofiu Kolesnikovu, sem fannst látin á Selfossi við torkennilegar aðstæður hjá kærasta sínum, lýsir ráðgátunni sem hverfist um andlát hennar. Sofia, sem hafði flutt til Íslands á barnsaldri árið 2010, hafði mikil áhrif á líf fjölskyldunnar. Hún bjó við fátækt fyrstu árin á Íslandi, en Sofia hafði gengið í Austurbæjarskóla og starfaði síðan meðal annars í World Class á Seltjarnarnesi.
Það sem fjölskyldunni og lögreglu finnst tortryggilegt er að þegar Sofia lést hafði hegðun hennar gjörbreyst. Fjárhagslega ábyrga og heilsumeðvitaða unga konan var skuldum vafin og greindist með eiturlyf í blóði. Lögregluna grunar að hún hafi orðið fyrir nauðungarstjórnun kærastans sem var á vettvangi þar sem hún lést. Þetta kemur fram í þriggja þátta seríu Þóru Tómasdóttur fjölmiðlakonu í þættinum Þetta helst á Rás 1.
„Hún var mjög góð systir,“ segir bróðir hennar, Deivs Kolesnikovs, í viðtali við Þóru á Rás 1. Deivs lýsir karakter Sofiu, sem rímar illa við aðstæður hennar fyrir fráfallið.
„Ég var alveg með mína erfiðleika. Lenti í erfiðum vinahópum. Á þeim tíma hjálpaði hún mér að sjá vinahópinn sem ég var í, að hann hefði verið vitlaus. Mjög snemma byrjuðum við að tala um framtíðarmarkmið. Hún mótaði mig ofsalega mikið þar. Með íbúðarkaupum og með að ná lengra, ekki bara að fara í ruglið af því að þetta er erfitt.“
Varðandi eiturlyf og áfengi sagði Sofia við bróður sinn, að hans sögn: Þú getur alveg prófað, en ég mun aldrei gera það.
„Hún var rosaleg fyrirmynd. Hún dró mig úr þunglyndinu fyrstu árin. Hún hjálpaði mér að sjá að það er til framtíð. Þú getur alveg haft áhrif á þetta. Þetta er erfitt núna, en þú getur alveg gert eitthvað í þessu.“
Það var systkinunum mikilvægt að komast upp úr fátækt. Þau voru enn með sár eftir erfiðar aðstæður og missi í Lettlandi. Faðir systkinanna lést í Lettlandi úr krabbameini og ákvað því Valda Kolesnikova, móðir Sofiu, að flytja til Íslands, þar sem systir hennar bjó. Í september 2010 komu þau til Íslands og bjuggu hjá systur hennar.
„Við komum frá Lettlandi og fluttum af því að það var svo rosalega erfitt,“ segir móðir hennar, Valda Kolesnikova.
„Hún var mikið náttúrubarn. Elskaði, náttúru, elskaði blómin, elskaði garðinn.“
Valda lýsir Sofiu dóttur sinni í samtali við Rás 1. „Hún var mjög hlý. Hún var mikið náttúrubarn. Elskaði, náttúru, elskaði blómin, elskaði garðinn. Svo mikið úti í garðinum og í náttúrunni. Elskaði að veiða fisk.“
Þannig var Sofia það barn, af hennar fimm afkvæmum, sem hún hafði minnstar áhyggjur af.
„Hún var að passa alla fjölskylduna, til að enginn væri í veikindum. Hún var svo hrædd um að einhver færi í burtu, einhver myndi deyja aftur.“
Sofia var feimin og örlítið kvíðin, með félagskvíða. Á síðustu mánuðum lífsins leitaði hún til lækna vegna heilsubrests. Sofia var upptekin af heilsusamlegum lífsstíl, en síðustu mánuði ævinnar breyttist hegðunin. Eftir að hún lést voru tekin sýni úr hári hennar sem gáfu til kynna að hún hefði neytt fíkniefna síðustu mánuðina. Þetta var í algerri andstöðu við gildi hennar og hegðun fram að því. Um leið einangraði hún sig frá fjölskyldunni.
Maðurinn sem hún hafði komist í kynni við var staddur á vettvangi þar sem hún lést á Selfossi í apríl 2023. Hann hafði eytt gögnum af vettvangi. Óljóst var hvort hún hefði verið kyrkt eða látist af völdum fíkniefna. Maðurinn fannst látinn í Taílandi áður en héraðssaksóknari tók afstöðu til ákæru á hendur honum. Málið verður aldrei upplýst að fullu. Eitt er þó ljóst að hegðun hennar hafði gjörbreyst í nýju sambandi. Hún breytti matarvenjum, tók eiturlyf og tók lán. Fjármunir runnu frá henni og yfir til kærastans.
„Þegar ég heyrði kókaín og hún: Bara kjaftæði. Ef þú spyrð alla sem þekktu hana þá hefur enginn séð hana drekka og enginn séð hana taka neitt. Maður hugsar bara, það er helvíti ólíkt henni,“ segir Deivs, bróðir hennar, í þættinum Þetta helst á Rás 1. Í næsta þætti kemur fram að kærastinn var í sambandi með fleirum þegar andlátið bar að.
Komment