Undanfarna dag hefur stór hópur Íslendinga fengið boð bréfleiðis um að taka þátt í umfangsmiklu rannsóknarverkefni sem vísindafólk við Háskóla Íslands stendur að, ásamt samstarfsfólki á Norðurlöndum, en þetta kemur fram í tilkynningu frá HÍ
Markmið rannsóknarinnar er að greina þátttöku íbúa Norðurlandanna í ýmiss konar peningaspilum og meta hversu algengur spilavandinn er. Rannsakendur vona að niðurstöðurnar muni auka skilning á umfangi og alvarleika spilavanda í þessum löndum.
Um 30 þúsund Íslendingar hafa fengið boð í pósti um að taka þátt í könnuninni, en þátttakendur voru valdir af handahófi úr þjóðskrá.
Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar á Íslandi er Daníel Þór Ólason, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur í fjölda ára rannsakað þátttöku Íslendinga í peningaspilum sem og umfang spilavanda í íslensku samfélagi
Daníel segir að með rannsókninni sé ætlunin að kortleggja betur þátttöku Norðurlandabúa í peningaspilum og hugsanlegar neikvæðar afleiðingar hennar á íbúa.
„Rannsóknin veitir jafnframt í fyrsta sinn tækifæri til ítarlegrar greiningar og samanburðar á stöðu þessara mála milli einstakra norrænna ríkja. Einnig verður mögulegt að kanna t.d. hvort sýnileiki auglýsinga um peningaspil hafi áhrif á spilahegðun og hvort ákveðnir lýðfræðihópar séu útsettari fyrir slíkum áhrifum auglýsinga en aðrir,“ segir hann.


Komment