
Egill Helgason segir að nýr vinskapur Bandaríkjaforseta við yfirvöld Saudi-Arabíu, Íran og Sýrlands sé áhyggjuefni fyrir Ísrael.
Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason skrifaði færslu í morgun þar sem hann talar um Donald Trump og heimsókn hans til Saudi-Arabíu og glænýjan vinskap hans við Salman prins, og afléttingu hans á þvingunum á Sýrlandi.
„Undarlegt fyrirbæri Trump. Orðinn leiður á Ísrael og Netanjahú. Skilur að það eru vond tíðindi að vera alltaf í sjónvarpinu að sprengja börn og svelta. Fer til Saudi-Arabíu og finnur þar sinn nýja besta vin í Salman prinsi. Afléttir þvingunum á Sýrlandi tekur í hönd Sharaa, leiðtoga, landsins sem þar tíl skömmu fyrir jól var á lista yfir eftirlýsta hryðjuverkamenn. Segist ætla að semja við Íran - erkióvini Ísraels. Þetta væri talin meiriháttar stefnubreyting ef einhver annar Bandaríkjaforseti ætti í hlut - og kannski er sú raunin.“
Í seinni helming færslunnar segir Egill að Ísraelar þurfi að hafa áhyggjur vegna alls þessa en þar sem Trump sé óútreiknanlegur gæti afstaða hans breyst eftir hálfan mánuð. Bendir hann síðan á grein eftir Jonathan Freedland um þessi mál öll.
„Ísraelar sem einangrast sífellt meira á alþjóðavettvangi þurfa altént að hafa áhyggjur. En vegna þess að þetta er Trump gæti hann sagt eitthvað allt annað eftir hálfan mánuð. Heimsókn hans til Miðausturlanda hristi allaveg verulega upp í hlutunum. En á meðan halda Ísraelar áfram að sprengja og svelta fólk eins og enginn sé morgundagurinn - vegna þess að Netanjahú og nótar hans eiga allt undir því að stríðið haldi áfram. (Ágæt grein eftir Jonathan Freedland í athugasemd.)“
Komment