
Eldfjallafræðingurinn Þorvaldur Þórðarson telur líklegt að gjósa muni á Sundhnúksgígaröðinni á næstu dögum.
Hann telur að þeir fimm hundruð skjálftar sem mælst hafa á Reykjanesskaga síðan í gær tengist kvikusöfnun en stærsti jarðskjálftinn mældist 3,5 að stærð. Sá mældist klukkan hálf 12 í gærkvöldi en eftir þann þá dró úr skjálftahrinunni að einhverju leyti.
„Það getur alveg gosið bara á eftir,“ sagði Þorvaldur við RÚV um málið. Hann telur kvikan sé að safnast saman á fimm kílómetra dýpi. „Ég held að þetta tengist alveg örugglega kvikusöfnun þar.“
Hann segir þó að innflæði kviku sé hægara í þetta skipti en í aðdraganda síðustu gosa. Síðasta gosi á Reykjanesi lauk 9. desember 2024 og eru 113 dagar frá því að það hófst.
„Það er ekkert útilokað að það verði það síðasta. Það er að hægja það mikið á rennslinu og það er ekki víst að það nái aftur fyrri mörkum en við vitum það ekki fyrr en löngu seinna hvenær síðasta gosið er búið. Við verðum örugglega að bíða og bíða eftir næsta gosi en svo kemur það aldrei,“ sagði Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, við Mbl.is um hvort næsta gos gæti orðið það síðasta í þessari goshrinu.
Komment