
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lýsir yfir mikilli óánægju með það sem hún kallar kerfisbundna útilokun sína frá umræðuþætti RÚV, Vikulokunum á Vikulokin á Rás 1. Hún segir sig hafa verið boðaða í þáttinn aðeins einu sinni frá árinu 2018, þrátt fyrir að hafa gegnt formennsku í einu stærsta verkalýðsfélagi landsins í nær sjö ár.
Í færslu á Facebook rekur Sólveig Anna umfangsmikla reynslu sína í verkalýðsbaráttu og forystu Eflingar. Hún segir hafa leitt „fjölmargar verkfallsaðgerðir“, staðið fyrir „næstum óteljandi atkvæðagreiðslum um vinnustöðvanir“, sem allar hafi verið samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta, og gert fjölda kjarasamninga. Þá hafi hún oft komið fram fyrir dómstólum fyrir hönd félagsins og tekið virkan þátt í alþjóðlegri umræðu innan verkalýðshreyfingarinnar.
Hún ber stöðu sína saman við núverandi formann VR, sem hún segir hafa verið boðið í Vikulokin „um það bil 270 sinnum“ á tæpu ári, meðal annars til að ræða kjarasamninga sem Sólveig Anna sjálf samdi.
„Og nú, þessa dimmu helgi á glænýju ári, er nóg komið – og ég krefst svara,“ skrifar hún og setur fram röð spurninga um mögulegar ástæður útilokunarinnar.
„Er mér ekki boðið í Vikulokin afþví A. ég er bara með grunnskólapróf, B. ég er átakasækinn aðgerðasinni, C. ég er ekki vók, D. ég er ekki nógu dömuleg, E. þeim finnst ég hundleiðinleg t***a, F. þeim finnst ég heimskt fífl sem veit ekki neitt, eða G. ég er formaður í félagi verkafólks þar sem meira en helmingur er af erlendu bergi brotinn en ekki í félagi íslenskrar millistéttar? Eða allt af þessu? “
Sólveig Anna segist hafa sýnt „mikið langlundargeð“ og bælt niður bæði gildi sín og persónuleika vegna þess sem hún kallar „einbeitta og grófa móðgun“, en segir að nú sé mælirinn fullur.
Hún setur fram úrslitakosti í færslunni og segir að fái hún ekki skýr svör innan tveggja sólarhringa muni hún neita að greiða útvarpsgjald, fara í mál og krefjast þess að andvirði gjaldsins verði lagt inn á Litla Kisa, „svo að hann geti keypt sér rækjur“.
Færslunni lýkur hún með tilvitnun sem hún eignar útvarpsstjóra á síðustu öld:
„Í mér býr fól,“ skrifar hún og bætir við: „Fólið er biturt og krefst svara!“

Komment