
Frá klukkan 17:00 í gær til 05:00 í morgun voru alls 87 mál bókuð í kerfum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og gista þrír einstaklingar í fangaklefa.
Lögreglan við Hlemm hafði afskipti af erlendum einstakling sem hún grunar að dvelji hér ólöglega en hann var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Sömu lögreglu barst tilkynning um rafhlaupahjólaslys en ökumaður hjólsins var fluttur á Bráðamóttökuna til skoðunar. Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis.
Lögreglunni barst einnig tilkynning um líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur en engar frekari upplýsingar voru gefnar upp í dagbók lögreglunnar.
Lögreglan sem annast útköll í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi fór í útkall eftir að tilkynning barst um líkamsárás þar sem starfsmaður verslunar var sleginn. Gerandinn hafði yfirgefið vettvanginn áður en lögreglu bar að garði. Sama lögregla stöðvaði bifreið vegna gruns um að ökumaðurinn væri undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Aukreitis reyndist ökumaðurinn sviptur ökuréttindum vegna fyrri afskipta lögreglunnar.
Kópavogs- og Breiðholts lögreglunni barst tilkynning um þjófnað í verslun. Reyndist hinn grunaði þjófur vera víðáttuölvaður og óviðræðuhæfur. Var hann vistaður í fangaklefa þar til af honum rennur svo hægt sé að taka af honum skýrslu.
Þá var óskað eftir aðstoðar sömu lögreglu vegna ölvaðs einstaklings sem var þar til vandræða. Var honum vísað út og hélt hann sína leið.
Lögreglan sem starfar í Árbænum, Grafarholtinu, Grafarvoginum, Norðlingaholtinu, Mosfellsbænum, Kjósarhreppinum og á Kjalarnesinu stöðvaði þrjá ökumenn vegna gruns um ölvunarakstur. Sömu lögreglu barst tilkynning um mikinn hávaða koma frá íbúð í fjölbýli. Þegar betur var að gáð reyndist húsráðandi vera að horfa á sjónvarpið.
Komment